Á 888. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar mættu fulltrúar Knattspyrnufélags Fjallabyggðar, þau Þorfinna Þrastardóttir og Kristján R. Ásgeirsson, ásamt Óskari Þórðarsyni fulltrúa Ungmennafélagsins Í Fjallabyggð (UÍF), til að fara yfir hugmyndir um byggingu knatthúss í sveitarfélaginu.

Fulltrúar KF upplýstu að innan félagsins ríki sátt um að forgangsraða byggingu knatthúss til að bæta aðstöðumál, í stað þess að leggja gervigras á heilan völl.

Ákveðið hefur verið að félagið haldi fund þar sem tekin verður formleg afstaða til breytinga á stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála 2023–2035 í þá átt að fjárfest verði í knatthúsi af stærðinni 50 x 72 metrar í stað heils gervigrasvallar.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að kanna fjármögnunarmöguleika og undirbúning útboðs fyrir byggingu knatthússins. Jafnframt verður lögð fram tillaga að breytingum á stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála í samræmi við afstöðu Knattspyrnufélags Fjallabyggðar á næsta fundi bæjarstjórnar.