Síðustu sýningar af leiksýningunni Síldarstúlkur verða á Siglufirði um helgina.
Laugardagur 8. okt. á Kaffi Rauðku kl. 21:00 – örfáir miðar lausir
Sunnudagur 9. okt. á Kaffi Rauðku kl. 16:00 

Síldarstúlkur er einleikur á fjölum Rauðku sem fjallar um minningar kvenna af síldarævintýrinu á Siglufirði. Leikkonan Halldóra Guðjónsdóttir segir sögur síldarstúlkna af öllum stéttum sem sameinuðust á bryggjunni frá síðustu aldamótum þar til síldin hvarf af Íslandsmiðum á sjöunda áratugnum. Um tónlist sér harmonikkuleikarinn Margrét Arnardóttir og leikstjórn er í höndum Andreu Elínar Vilhjálmsdóttur. Síldarstúlkur er lífleg nýjung í þá flóru sem fjallar um síldarárin á Siglufirði.

Handritið er að miklu leyti innblásið af sögum frá ömmum höfunda verksins. Amma Andreu hét Hólmfríður Steinþórsdóttir. Í september árið 1952 var hún ræst út í síld, en hún kallaði um hæl út um gluggann á Hlíðarveginum ,,ég get ekki komið, ég var að fæða!” – þá nýbúin að fæða barn, móður Andreu, Elínu Sigríði Björnsdóttur. Aðeins fáeinum dögum eftir barnsburðinn var Hólmfríður mætt aftur á síldarplanið. Amma Halldóru hét Ásta Katrín Jónsdóttir.  Eftir erilsama daga í síldinni eina vertíðina leitaði hún til læknis vegna þreytu. Fékk hún þá uppáskrifuð lyf til að geta saltað á daginn og saumað á nóttunni. Leiksýningin Síldarstúlkur glæðir sögur sem þessar lífi.

Sérstakt tilboð í gangi fyrir eldri borgara í Fjallabyggð, verð 3500,-
hægt að taka frá miða með því að senda póst á halldora11@gmail.com, senda SMS eða hringja í síma 8576377

Almenn miðasala:
Miðasala á netinu: sildarstulkur.is

Mynd/aðsend