Inngangur


Siglufjörður árið 1946 – mjölhúsið óklárað, byrjað á syðsta verkamannabústað, bræðsla í fullum gangi og skipafjöldi á firðinum og við bryggjur

Fyrir mörgum árum var ég við nám í félagsfræði við háskólann í Osló og vann þar að ritgerð um þróun byggða, einkum sjávarbyggða. Auðvitað var þróun Siglufjarðar mikilvægt viðfangsefni. Þetta var skömmu eftir að síldin brást og ástandið á Siglufirði varð slæmt. Ritgerðin sjálf er að mestu týnd, en ég á enn eitthvað af heimildum og slitrum úr ritgerðinni, sem segja sögu.
Í þremur stuttum greinum segi ég frá skipakomum til Siglufjarðar, breytingu á fjrárhagslegu umhverfi og búferlaflutningum. Þetta meira frásögn en vísindaleg greinargerð. 

Siglufjörður – skipakomur – 1

Það eru fáir, ef nokkrir bæir, sem eiga sér sögu eins og Siglufjörður. Árið 1890 bjuggu rúmlega sjötíu manns í Siglufirði. Um aldamótin voru þeir orðnir 142 og 410 íbúar árið 1910. Íbúafjöldinn var orðinn rúmlega 2000 árið 1930 og fór mest í rúmlega 3000 manns árið 1948, sem er aukning um 3000 manns á tæpum 50 árum.

Við þekkjum öll þá gríðarlegu atvinnuuppbyggingu sem átti sér stað. 


Eitt af því sem ég mundi eftir sem strákur á Siglufirði síldaráranna var hinn mikli fjöldi skipa sem komu til Siglufjarðar, stór og smá. Fjörðurinn var stundum fullur af skipum og bátum að koma og fara.
Ég frétti af því að hafnarskrifstofan hefði haldið skrá yfir skipakomur til Siglufjarðar um árabil. Ég fékk aðgang að þessari skrá og sat við gamalt skrifborð á hafnarskrifstofunni í allmarga daga og skrifaði upp og flokkaði skipakomur.  

Ég á þessa skráningu mína ennþá en ritgerðin, sem ég vann að er að mestu týnd. 

Árið 1937 er fyrsta árið í minni skrá. Hvort skráningin hafi náð lengra aftur í tímann en til 1937 veit ég ekki, en ef svo er þá voru þær bækur ekki tiltækar á hafnarskrifstofunni, en eru vonandi til á skjalasafni Siglufjarðar. 


Það voru alls skráðar 4200 skipakomur til Siglufjarðar árið 1937. Flest íslensk fiskiskip og bátar og 719 erlend fiskiskip og hvorki meira né minna en 198 íslensk og erlend flutninga- og farþegaskip. Næstu árin fjölgar enn skipakomum. Árið 1939 eru skipakomur alls rúmlega 6000, rúmlega 5000 íslensk fiskiskip og bátar, 730 erlend fiskiskip og 244 flutninga- og farþegaskip. Skipakomum fækkar nokkuð á

stríðsárunum, skiljanlega fækkaði kommum erlendra fiskiskipa og flutningaskipa, en fjölgar svo aftur strax eftir stríðið. Árin 1946 og 1947 eru skipakomur vel yfir 5000 og þá fjölgar komum erlendra fiskiskipa mjög. Árið 1946 eru erlend fiskiskip 1317 og árið 1947 eru þau 2331, og það árið eru flutninga- og farþegaskip 533. 

Ég skráði ekki hvenær ársins skipakomurnar voru og en ef við gefum okkur að þær hafi fylgt síldarvertíðinni að mestu þá eru þetta mikill fjöldi skipa og báta á hverjum degi allt sumarið. Væntanlega eru farþegaskipin okkar eigin skip og þá nær eingöngu þau skip sem Skipaútgerð ríkisins gerði út, m.a. Herðubreið og Skjaldbreið sem komu ný til landsins 1948 og svo Esja og Hekla sem einnig komu nýsmíðuð um sama leiti. Hér verður vissulega að bæta við okkar góðu samgöngubót, póstbátnum Drang.
Það var talsverður fjöldi erlendra flutningaskipa sem fluttu varning til til söltunarstöðva og svo auðvitað að flytja síldina í tunnum til ýmissa landa. Sum árin hafa því komið fleiri en eitt flutningaskip að jafnaði inn fjörðinn á hverju degi, alla vega yfir sumarmánuðina.  

Það var þröngt um á Hafnarbryggjunni þegar skipin lágu þar við bryggju og umferðin um bryggjuna var mikil. Ég fór oft um borð í skipin til þess að skipta á eldspítustokkum við skipverja. Ég safnaði eldspítustokkum og átti eitthvað á annað þúsund mismunandi stokka. Ég man sérstaklega eftir framandi lyktinni um borð og kryddlyktinni sem kom frá eldhúsinu og svo „hrognamáli“ skipverja. Það var „hrognamál“ ef það var ekki íslenska. Það var í viðkynningu við þessi erlendu skip og mannskapinn um borð að draumurinn um að fara erlendis vaknaði, draumurinn um þetta ókunna hinum megin við fjöll og haf. Og svo fór að ég fór til náms erlendis strax eftir að ég lauk Menntaskólanámi á Akureyri. 

Fjölda erlendra fiskiskipa fækkar svo árið 1963 og sama má segja um skipakomur til Siglufjarðar samtals. Það árið eru þær 1879 og eftir 1966 eru skipakomur færri en 1000. 

Þess ber að geta að á þessum tíma urðu miklar breytingar á skipakosti landsmanna sem skýrir að einhverju leyti fækkun skipakoma til Siglufjarðar, en aðal skýringin er að síldin færði sig bæði norðar og austar. Síldarbátarnir lönduðu gjarnan í síldarflutningaskip og svo í höfnum annars staðar. 

Síðustu tölur sem ég hef undir höndum eru frá árinu 1972. Þá voru skráðar 764 skipakomur til Siglufjarðar, 484 íslensk fiskiskip, 75 erlend fiskiskip og 205 flutninga- og farþegaskip. 

Í næsta pistli segi ég frá því hvernig breyting í efnahagslegu umhverfi hjálpaði Siglfirðingum þegar svarf að eftir að síldin brást. 

Mynd/Einar Albertsson