Göngutúr frá Húsavík til Akureyrar 1904
Á Húsavík var það ætlun Edvins að bíða þar í nokkra daga eftir millilandaskipi, sem átti að koma við þar á leið sinni til Akureyrar. Hann bíður og bíður og ekkert bólar á þessu skipi, Edvin eyðir tímanum í að skoða sig um og fær ýmsar fréttir úr nágrenni Húsavíkur og nefnir þar meðal annars brennisteinsnámur í Mývatnssveit. Hann segir einnig frá að hann hafi hitt nokkra enska túrista. Ein moldrík dama og dóttir hennar frá London hafa eytt tveimur heilum sumrum í að ferðast um Ísland og segir Edvin að þessi ónafngreinda enska hefðarfrú, hafi meira að segja lært að tala ágætis íslensku.
Hann verður nú óþolinmóður og ákveður að senda farangur sinn og fl. seinna með skipi til Siglufjarðar og flýta för sinni til Akureyrar og fara einn síns liðs fótgangandi til Akureyrar, honum liggur á að komast til Siglufjarðar.
Hér verðum við að hafa í huga að þegar þessi langi og ævintýralegi göngutúr byrjar, er þegar langt liðið á september mánuð. “Þessi göngutúr tók tvo daga og er mér eftirminnilegur…” segir Edvin og hér verður stiklað á stóru í atriðum sem lýsa svo vel tíðarandanum og lifnaðarháttum Íslendinga á þessu herrans ári 1904.
“Ég gekk og gekk allan liðlangan daginn og kom fyrst að prestsetri og þar var mér sagt að ég gæti ekki vaðið sjálfur yfir vatnsmikla á, sem lá á leið minni og fékk ég þá hjálp frá hestum sem syntu með mig yfir ánna. Um kl. 10 að kveldi, kem ég loks að bóndabænum Einarsstöðum, torfbæ, þar sem allt var undir sama sambyggða takinu, manneskjur og skepnur… “
“…Ég bið þar um næturgistingu og mat. Guttinn á bænum skrapp og veiddi stóran feitan urriða handa mér í kvöldmat og rendi ég honum niður með ferskri mjólk beint úr kúnni. Þarna inni voru allir veggir gerðir úr torfi, og hér voru engar stáss mublur heldur, en allt samt mjög svo snyrtilegt.
Ég varð því mjög svo hissa, þegar mér var vísað til svefns í mjög svo fallegu og fínu viðarpanelklæddu herbergi með fallegum húsgögnum og veggfóðri... “
Hér er greinilegt að vinur vors og blóma, veraldarvanur Norðmaðurinn, veit ekki mikið um Íslenska bóndabæi og hagi íbúa landsins. Enda hafði hann hingað til eingöngu haft gistingu í Reykjavík og um borð í farþegaskipum.
“Ég fer síðan aftur af stað næsta morgun kl. 07.00 og villist fljótlega af leið minni og gekk ég mun lengra en áætlað var, bændur á leið minni voru allir almennilegir og hjálpsamir og gáfu mér mjólk að drekka.
Síðan er mér eftirminnilegt klukkustundar stopp á prestsetrinu Háls, en þar fékk ég loksins alvöru kaffisopa. Átti þar skemmtilegt samtal við upplýsta og veraldarvana prestsfrú, sem óskaði sér einskis meira en að komast burt frá þessari menningarlegu eyðimörk, sem þessi afskekkta sveit var. Ég frétti löngu seinna að henni varð aldrei af ósk sinni og hún er víst enn þá þarna undir fjallinu, en guttarnir hennar komust allir til manns og ára og eru miklir framámenn í sínum sveitum í dag.“
2 dagar, á Akur- og Odd-eyri haustið 1904
“Ég kom til Akureyrar á miðnætti og var vel tekið á móti mér á Hótel Akureyri af hinum indæla hótelstjóra Hr. Vigfúsi Sigfússyni.”
Hér á Oddeyrinni fær Edvin með eigin augum, í fyrsta sinn að horfa á löndun og söltun á stórri og feitri ISLANDSILD, þegar norska rekneta síldveiði skútan s/s Kvarn og kapten Sekse landar rúmlega 200 tunnum af síld.
Edvin segir að það séu mest Svíar í síldarbransanum hér við Eyjafjörð, en getur ekki stillt sitt Norska hjarta og nefnir stoltur nokkra þekkta landsmenn sína, sem nú þegar eru komnir til Íslands í síldveiði og vinnslu:
- Hr. Mannes, Askrehavn.
- Hr. O. Sekse, Haugesund.
- Hr. Tormod Bakkevik,Haugesund.
- Hr. H. Henrikssen s/s Ludolf Eide, Haugesund.
- Hr. H. Söbstad, Bremnes, Kr. Sund.
- Hr. Johan E. Hareide d/s Skolma, Hareid.
- Hr. Lars Garshol, d/s Ulf, Ulstein
Síðan heldur Akureyrarfrásögnin áfram í öðru hliðarspori, sem gefur lesendum enn og aftur tilfinninguna um að Hr. Jacobsen hafi svo sannarlega, hitt flest allar, þýðingarmiklar persónur, í síldarsögu Íslands og Noregs.
“Ég fór og heilsaði upp á Svensk/Norska “Consulate” Hr. Jacob Havstein og hans danskættuðu eiginkonu, bæði mikið indælis fólk og ég hef aldrei áður á ævinni komið inn í svona mikið lúxus heimili.“
Sjá myndir og meira hér um þennan sögufræga mann og hans hús: Hús dagsins: Strandgata 35, (Akureyri.net)
Síðan stekkur Edvin, enn og aftur inn í ókomna framtíð… og bætir við að honum þyki mikið leitt að þessi indæla kona hafi seinna, orðið að flytja út úr þessu fallega bústað, eftir að illa gekk hjá fjölskyldufyrirtækinu í sinni síldarútgerð o.fl.
Þar á eftir segir Edvin: “Sonurinn Johan fór á bólakaf í drykkjuskap, en sem betur fer gat þessi indæla kona flutt inn og dáið í friði hjá syninum, Julisus Havsteins sem var þá orðinn sýslumaður á Húsavík.“
Þar með lýkur frásögnum frá þessu tveggja daga stoppi inn á Akureyri og segir hann ekkert um, með hvaða skipi hann fór til Siglufjarðar. Því varla fór hann gangandi þangað.
2 dagar á Siglufirði haustið 1904!
Þetta er stutt stopp, en Hr. Jacobsen, verðandi Síldarkóngur og frumkvöðull, nær samt að gera heilmikið og safnar upplýsingum og er í góðum samskiptum við áhrifafólk í þessari verðandi höfuðborg síldarinnar.
Fyrir utan þær áður nefndar lýsingar af komu Edvins á nær því óbyggða Þormóðseyrina, segir hann síðan eftir farandi um þetta stutta ferðastopp í Siglufirði haustið 1904:
“Ég komst fljótt að þeirri staðreynd að ALLAR áhugaverðar söltunarplans lóðir, voru nú þegar seldar Norðmönnum og Íslendingum, eða uppteknar af öðrum, eins og t.d. Gránufélaginu, sem átti þá bestu lóðina á Eyrinni. Þurfti ég því að yfirgefa staðin án þess að geta gert neitt þetta árið.
Edvin nær samt að ná tali af og fá góð ráð frá, þeim sem hann kallar, “Stærstu lóðareigendur Siglufjarðar”, en þeir eru eftirtaldir Síldarfrumkvöðlar: Hr. H. Söbstad, Tormod Bakkevik, Johan Hareide og H. Henriksen, en þeir höfðu allir keypt sínar lóðir af prestinum og prestakallinu Hvanneyri.
Áður en Hr. jacobsen fer og yfirgefur okkur í þessum hluta sögunnar verður hann aðeins að benda á eftirfarandi sögulega staðreynd, svona rétt til að gera smá skák og mát á síldarsögu Svíana:
“Það er sögulega áhugavert að benda á, að einmitt á lóð Gránufélagsins, var þegar síldarvinnsla 1880, hjá fyrirtæki frá Ålesund undir stjórn Hr. Brekke, sá hin sami og seinna varð “Konsul Brekke i Hull”.
Þannig að það eru við frá Ålesund sem stofnuðum þennan bæ.“
Hér koma einnig viðbóta heimildir frá (K.S.H) um Hafliða Guðmundsson hreppstjóra:
“Hafliði var lengi vel einn í því, að sjá um löggæslu á Siglufirði, eða allt fram til 1908. Þar fyrir utan, sá hann um að krefja inn toll og hafnargjöld. Hann var skemmtilegur húmoristi og gerði engan greinarmun á Norðmönnum og Íslendingum og var einstaklega duglegur við að stilla til friðar”
Edvin nefnir síðan ekki á nafn skipið, sem hann fer með frá Siglufirði, en segir að það sé sama skipið sem hann beið eftir á Húsavík og átti að frakta hann til Akureyrar, það er nú komið til Siglufjarðar á leið sinni erlendis.
Síðan bætir hann við að bæjarfélagið hafi vaxið svo hratt að Siglufjörður fékk kaupstaðaréttindi 1918.
1905 – 1913 á Siglufirði
1905: “Ég byrjaði í síldveiði bransanum með síldarsöltun um borð í seglskútunni Pílen frá Stavanger og sá þá minni báturinn Orion um sjálfa veiðarnar. Að þeim veiðum loknum, seldi ég starfsemina, til annarra útgerðarmanna á Siglufirði“
Síðan bætir Edvin við og er hann hér líklega, enn og aftur að skreyta sig of stórum grobb Síldarkónga hanafjöðrum og samtímis reyna að dylja grun og orðróm um að hann sé kannski bara “Leppur” fyrir aðra, sér mun fjársterkari karla:
” Á þessum tíma var lítill markaður fyrir Íslandssíld, einna helst einungis í Svíþjóð. Einn af þeim fyrstu sem saltaði síld á Siglufirð var hr. Adolph Solbu, sem í gegnum mitt umboð, saltaði og keypti 600 tunnur 1905.
Þessi litla síldarsending verður þess valdandi að ég seinna kem undir mig fótunum í síldarbransanum.
Ég hef á þessu tímabili til umráða tvö minni seglskip í höfninni á Siglufirði og einnig oft, eitt og tvö gufu knúin stór fraktskip í reglulegum flutningum á milli Siglufjarðar og Gautaborgar.
Þessu fylgdi mikið vinnuálag og það var einnig á þessum tíma, mjög svo erfitt að fá fólk í vinnu. Vegna húsnæðisleysis á Siglufirði. En allir sem gátu lagt hönd á plóg voru í vinnu. Jafnt börn prestsins og hreppstjórans, sem og bændur og almennir borgarar.” Og í lokin bætir Edvin við:
” Þetta var á þeim tíma, þegar það var engin skömm í því að vinna fyrir sér með heiðarlegri vinnu.”
1906: Hér er vitnað í aðrar heimildir frá áðurnefndum (K.S.H.) : “Hann tekur á leigu lóð á tanganum , austan við Gránufélagslóðina og byggir þar langa bryggju (pír) sem gengur út í höfnina í suðurátt, Jacobsen byggir þar einnig íbúðarhús og söltunarplan o.fl., þar innan við þessa löndunarbryggju.”
ATH. Eins og sjá má hér neðar, þar sem vitnað er í aðrar íslenskar heimildir. Koma upp efasemdir um ýmislegt sem Edvin Jacobsen segir og (K.S.H) um sín upphafsár á Siglufirði og gildir það jafnt um hvar hann sé skráður til heimilis, hvort að hann sjálfur eigi starfsemina sem hann rekur í sínu nafni og hvort hann hafi byggt margt og mikið á þessari leigulóð eða hvort þar var þá þegar ýmislegt til staðar?
Leppur!
Hér kemur loksins útskýring á þessum áðurnefndum efasemdum um hver á hvað… Jacobsen eða Solbu & Co, Gautaborgarfélagið stóra. Með eigin orðum Edvins: “1906 fékk ég umboðsmanna stöðu hjá Adolph Solbu & Co og H.H. Kristensen. Þetta umboð hafði ég í 12 ár eða allt til 1918 og var ég alla tíð í góðum samskiptum og samvinnu við það félag.”
“Mér fannst oft á tíðum ansi erfitt að deila vinnutíma mínum á milli eigin starfsemi og umboðsmanna vinnu minnar og þegar ljóst varð að lóðaleigusamningnum á tanganum, sem stóð í mínu nafni yrði ekki framlengt. Því á þeirri lóð átti nú að fara að byggja stóra síldarbræðslu verksmiðju…” (Ath. Svæði sem seinna verður kallað Rauðka.)
Síðan bætir hann við… og setur það innan sviga:
“(En þessi leigusamningur og eignir, tilheyrðu í rauninni Adolph Solbu & Co)“
“Síðan fann ég lóðir til sölu við Gránugötu 24 A og B og keypti þær 1912 og byggði þar upp eigin söltunaraðstöðu 1913.“
Þar með líkur “Leigu Leppasögu” sögu Hr. Jacobsens og hann verður þá loksins síldarkóngur í eigin nafni.
En orðið Leppur er dregið af þeirri staðreynd að menn eins og Edvin sem fékk íslenskt Borgarabréf 1907, eins og áður er nefnt og hafði skráða búsetu í íbúðarhúsi og þar með leyfi til að vinnslu í landi og síldveiði réttindi innan landhelgi Íslands.
Að aðrir fjársterkari aðilar, notfærðu sér slíka menn og komust þannig fram hjá allskyns reglugerðum.
Þessi Leppaferill Edvins gerir hann ekki í mínum augum að minni manni. Hann er séður og á þessu tímabili leggur hann einnig grunnin í sínum eigin fyrirtækja uppbyggingu. Því það er augljóst að hann vinnur samtímis fyrir eigin reikning, eins og fram hefur komið t.d. varðandi lyfjalýsis verðlaun 1908 og að hann virðist samtímis hægt og rólega byggja upp ýmsa starfsemi í Fosnavåg.
Siglfirskt og Íslenskt heimilda hliðarspor!
Einnig kemur ýmislegt bitastætt og skondnar frásagnir, seinna í eigin texta Edvins, um upphafsár hans í Síldarbransanum. Nú verðum við staldra aðeins við og taka smá Siglfirskt hliðparspor í sögunni og kíkja betur á staðsetningu leigulóða og eignarlóða Edvins, en í sögusamantekt Tine barnabarni Hr. Jacobsens birtir hún hér mynd af götukorti frá Siglufirði og er þar bent á staðsetningu út frá götunúmerunum Gránugata 24 A og B og hér kemur upp viss óvissa um að ýmsar staðreyndir úr þessu litla söguhefti stangast á við aðrar heimildir.
Það er oft gott að eiga góða að, sérstaklega aðra sögugrúskara eins og t.d. Leó Ólason og Steingrím Kristinsson. Undirritaður vissi af því að Leó hefur í mörg herrans ár verið að afla heimilda um ýmis merkileg horfin hús og götur og götunöfn á Siglufirði og lagt á sig mikla heimildarvinnu og fékk undirritaður góðfúslega leyfi til að vísa í óbirta samantekt frá honum, þar sem fram kemur ýmislegt bitastætt varðandi feril Edvins og eigir og annað sem varða þessa sögu.
Það skal skýrt tekið fram að margt og mikið af þeim sögulegu heimildum, sem Leó vitnar í, koma úr handriti Siglfirska sögumannsins, Benedikts Sigurðssonar. Þetta handrit er nú aðgengilegt fyrir alla á heimasíður Síldarminjasafni Íslands. Sjá meira hér: Söltunarstöðvar á Siglufirði.
Við skulum hafa í huga að Tine skrifar sína samantekt um afa sinn, með sögulestur norskra vina og vandamanna í huga, en Íslenskir og þá sérstaklega Siglfirskir lesendur, vilja örugglega vita meira og bera saman ólíkar heimildir, um ævi og störf Síldarkóngsins Jacobsens.
Leó Ólason bendir á eftirfarandi staðreynd:
“Árið 1941 breyttust húsnúmer á öllum götum á Eyrinni sem lágu í austur / vestur. Fyrir þann tíma var talið frá vestri og í átt að hafnarbryggjunni í tilfelli Gránugötunnar, en eftir 1941 var farið að telja í hina áttina, þ.e.a.s. frá Tjarnargötu og upp að torginu. Það er bara spurningin hvort þessi götunúmer eru miðuð við tímann fyrir eða eftir þessa breytingu sem var auðvitað ansi mikil. Til að mynda var húsið mitt númer 5 við Aðalgötu en er núna númer 28 svo dæmi sé tekið.“
Með þetta í huga og út frá þeim upplýsingum um hverjir áttu lóðir áður en Edvins leigir og kaupir seinna, getur undirritaður áætlað að Síldarkóngurinn Jacobsen hafi verið með sína og annara manna starfsemi á þessum svæðum á sunnanverðri Eyrinni, líkt og sjá má þá þessari mynd:
Leó segir einnig í sínum óbirta heimilda texta:
“Gránugata 5. Árið 1930 er enginn íbúi er skráður þar, en ýmislegt bendir til þess að þetta sé hús Edvins Jacobsen, sem er sagður hafa byggt sér hús sem kallað var Jakobsenshúsið á næstu lóð fyrir ofan Rauðku árið 1914, samkvæmt skýrslu Hörpu Grímsdóttur um byggingarár húsa á Siglufirði, en samkvæmt því sem segir í Aldarminningu séra Bjarna má ráða að E. Jakobsen hafi byggt hús árið 1911, sem kallað var Strýta og að það hafi staðið á lóð sunnan við Gránugötuna gegnt gömlu Slökkvistöðinni. Séra Bjarni segir að í húsinu hafi margir búið þó tæplega sé þar byggilegt. Það er svo auðvitað spurning hvort um tvö hús gæti verið að ræða þar sem annað húsið er merkt númerinu 24a samkvæmt gamla númerakerfinu þegar húsin voru númeruð frá torginu og niður úr.
Athygli vekur að Edwin Jakobsen er skráður til heimilis í Hvíta Húsinu, húsi Sören Goos árið 1930. “
“Önnur heimild bendir til þess að Strýta hafi staðið við Tjarnargötu norðan við gatnamótin við Aðalgötu, en Kristinn Halldórsson kaupmaður ritaði um að eitt landlegukvöldið hafi hann gengið niður Aðalægötu og beygt inn á Tjarnargötu til norðurs. Þar hafi hann gengið frá hjá húsunum Strýtu, Amsterdam og Rotterdam áleiðis á bryggjuball á söltunarpalli Bakkevigs. En svo getur verið að Kristinn hafi tekið einhvern sveig á göngu sinni áður en hann fór inn á Tjarnargötu, en um það vitum við ekki.“
Það er nokkuð ljóst út frá fyrri lýsingum Edvins, um að hann er fastur næturgestur í Maddömuhúsi tengdafaðir síns Hafliða hreppstjóra Guðmundssonar, sín fyrstu 10 ár á Siglufirði, að þetta “STRÝTU” hús, Virðist vera týpískt “Leppa íbúðarhús” og líklega hefur Jacobsen, sjaldan haft þar fasta búsetu.
Hér fáum við betri og nánari upplýsingar frá Leó um hina íslensku eiginkonu Edvins, sem var hans stoð og stytta fram til 1941. Eins og sjá má þá er hún ekta Siglfirðingur í húð og hár.
“Jakobsen kvæntist Guðmundu Ágústu Benediktsdóttur (1888-1941) en hún var fósturdóttir Hafliða Guðmundssonar hreppstjóra (1852-1917) og Sigríðar Pálsdóttur (1855-1932) konu hans eftir að móðir hennar lést, en hún var einnig í Höfn árin 1894-1897. Guðmunda var dóttir Benedikts Jónssonar (1848-1900) í Efri-Skútu og Margrétar Bjarnadóttur (1850-1890) frá Staðarhóli.“
🇸🇪 Svíar eða 🇳🇴 Norðmenn?
Það er gleðjandi að með heimildartexta Siglfirska sögumannsins Leó Ólason, sem hann svo góðfúslega leyfir mér að vitna í. Fylgdu með hugleiðingar hans um hið svokallaða “seinna landnám Íslands.” Rétt eins og ég bendi oft á í þessari endursögn, finnst mér stundum að norski síldarkóngurinn Hr. Jacobsen, skrifi upp sína eigin landsmenn og þátt þeirra í upphafsárum síldarævintýris Íslands og að hann tóni niður þátt t.d. Svía. Edvin viðurkennir þó, að lokum á efri árum, að hans Síldarkóngaferill byrjaði reyndar í góðri og launsamri samvinnu við einmitt Svía.
Þar af leiðandi er það ánægjulegt að Sigló-söguvinur minn og tónlistarmaðurinn Leó, er á sömu nótum, í sínum síldarsögu hugleiðingum:
“Stundum er talað um norska landnámið hið síðara og er þá átt við það þegar Norðmenn hófu síldveiðar fyrir norðurlandi og gerðu Siglufjörð að aðalbækistöð sinni. Sjaldnar heyrist talað um landnám Svía á Siglufirði sem er þó alveg fullkomin ástæða til, en Kristinn Halldórsson skrifaði merkilega grein í Frjálsa Verslun árið 1960 sem hann kallar einmitt „Landnám Svía á Siglufirði“. Reyndar voru það ekki aðeins Norðmenn og Svíar sem fluttu í bæinn ýmist yfir sumarið eða til lengri tíma. Þarna voru einnig ferðinni Danir, Færeyingar, Finnar og Þjóðverjar, en í mismiklum mæli þó.”
“Svíar voru frá upphafi síldveiða fyrir norðurlandi helstu kaupendur saltsíldarinnar og reyndar þeir langstærstu allt fram til 1940. Segja má að um skeið hafi þeir verið nánast einráðir á þessum markaði, en smátt og smátt fjölgaði kaupendum og nýir markaðir opnuðust. Sænskir síldarkaupmenn, skipamiðlarar, fiskimenn, forvitnir ferðalangar og ýmis konar ævintýramenn leituðu til Siglufjarðar á sumrin, en aðeins einn Svíi sem hét John Wedin reisti stóra síldarstöð í bænum. Hann eignaðist sjávarlóðina sem norski frumherjinn Mannes hafði áður tekið á leigu árið 1903 og var hún á milli Gránubryggju og Hinriksenstöðvar. Síðar reisti hann snoturt íbúðarhús í brekkunni fyrir ofan eyrina sem var ýmist nefnt Wedinshús eða Wedinsvilla.” (Heimildir frá óbirtum texta Leós Ólasonar)
Síldarkóngurinn Jacobsen! III hluti:
Í þessum lokakafla, skoðum við fleiri sögulegar áhugaverðar ljósmyndir, bætum við ýmsum þekktum íslenskum heimildum í síldarkóngasögu Hr. Jacobsens á Siglufirði o.fl.. Svo fáum við lesa hugleiðingar, um bæði skondnar og sorglegar minningar Edvins, um stór tap ár og stríðsárin. Stuttar viðbótar upplýsingar um Guðmundu Jacobsen.
Að lokum kemur úrdráttur úr síðustu dagbókarfærslum hans 1954 og þar sendir aldraður norskur Síldarkóngur okkur Íslendingum mjög svo fallega kveðju.
Þar á eftir er Hr. Edvin Jacobsen skrifaður inn í “Wall of Fame” síldarsögunnar.
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson
Í góðri samvinnu við Siglfirsku sögumennina:
Steingrím Kristinsson og
Leó Ólason
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd o.fl.:
Mynd lánuð úr söguheftinu: Bestefar Jacobsen, Endurunnin af pistlahöfundi.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
ATH. Endurvinnsla á myndgæðum, í eldri ljósmyndum er gerð með gervigreind af Steingrími Kristinssyni.
Vísað er í ýmsar heimildir í vefslóðum í greininni og í tímarit.is.