Sjúkrabíllinn í Hrísey er nú kominn aftur út í eyjuna eftir að hafa verið færður í land til yfirferðar og viðgerðar.
Sjúkrabíllinn var fluttur í land 14. nóvember, þar sem farið var yfir allan búnað hans og hann sendur á verkstæði í ítarlega skoðun. Í gær, 17. desember, snéri sjúkrabíllinn aftur til Hríseyjar. Í kjölfar endurkomunnar fá vettvangsliðar upprifjun á fyrstu hjálp, auk þess sem búnaður bílsins verður kynntur og farið yfir notkun hans.
Samkvæmt nýjum samningi Slökkviliðs Akureyrar og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) verður vettvangsliðahópurinn í Hrísey framvegis undir stjórn Slökkviliðs Akureyrar. Klas Rask, varðstjóri slökkviliðsins í Hrísey, leiðir hópinn fyrir hönd slökkviliðsins, en Guðmundur Smári Gunnarsson og Vigfús Ólafur Bjarkason, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hjá Slökkviliði Akureyrar, sjá um þjálfun, æfingar og endurmenntun fyrir vettvangsliða og slökkviliðseiningar í eyjunni.
Með þessu fyrirkomulagi mun Slökkvilið Akureyrar styðja vettvangsliðahópinn í útköllum í gegnum fjarskipti og tryggja sérhæfða aðstoð ef þörf krefur.
Mynd: Ásrún Ýr