Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg fékk í gær úthlutað styrk úr menningar- og viðurkenningasjóði KEA sem mun renna til uppbyggingar nýs krílaskóla. Verkefnið miðar að því að kynna yngstu börnunum gleðina við skíðaíþróttina og skapa þeim öruggt og hvetjandi umhverfi úti í fersku fjallaloftinu.

Krílaskólinn er ætlaður börnum á aldrinum 3 til 6 ára. Elsti árgangur leikskólans og fyrsti bekkur grunnskólans munu fá tækifæri til að taka þátt og fá jafnframt lánaðan skíðabúnað frá Skíðafélagi Siglufjarðar. Börnin geta haft búnaðinn í sína umsjón allan veturinn sem sinn eigin og þannig öðlast aukið sjálfstæði og öryggi á skíðum.

Skíðafélagið hvetur jafnframt krakka á öllum aldri til þátttöku í æfingum og öllu því fjölbreytta og skemmtilega félagsstarfi sem boðið er upp á yfir veturinn. Með styrknum vonast félagið til að geta náð til enn fleiri barna og lagt grunn að sterkri framtíð skíðaíþróttar á Siglufirði.

Myndir: facebook / Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg