Vegna spár um ofsaveður á öllu landinu næsta sólarhring og óvissustigs almannavarna sem lýst hefur verið yfir á öllu landinu var tekin sú ákvörðun á fundi viðbragðsaðila í Fjallabyggð að allt skólahald í Fjallabyggð falli niður á morgun föstudaginn 14. febrúar 2020.

Það gildir um leikskólastarf, grunnskólastarf og starf Tónlistarskólans á Tröllaskaga í Fjallabyggð. Þessar stofnanir verða því lokaðar.
Þá fellur allur akstur skólarútu niður á morgun föstudag og ekkert starf verður í Félagsmiðstöðinni Neon á föstudagskvöld.

Íþróttahús og sundlaugar Fjallabyggðar verða einnig lokaðar í báðum byggðarkjörnum á morgun 14. febrúar.

Þá fellur allt skipulagt starf fyrir eldri borgara á vegum sveitarfélagsins niður í báðum byggðarkjörnum svo og starf í Iðjunni dagvist.

Íbúar eru hvattir til að vera ekki á ferli að nauðsynjalausu ef spár ganga eftir og ganga vel frá lausum munum til að koma í veg fyrir foktjón eins og kostur er.

Mynd: Halldór Gunnar Hálfdánsson