Söngvarakeppnin hefur verið haldin frá árinu 1989, en fyrstu árin fór hún fram í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka, enda voru nokkrir kennarar í Laugarbakkaskóla gríðarlega áhugasamir um tónlistarlíf og unnu mikið starf í að fá nemendur til að taka þátt í tónlistartengdum uppákomum með ýmsum hætti- T.d. með því að aðstoða nemendur við að púsla saman hljómsveitum.

Eftir sameiningu skólanna í Vestur – Húnavatnssýslu hefur keppnin farið fram í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

Í öll þessi ár hefur undirspil verið “lifandi”: Ýmist hafa starfandi hljómsveitir tekið að sér undirleik eða sett hafa verið saman bönd fyrir tilefnið.

Í ár er þar engin undantekning og er hljóðfæraleikur að þessu sinni í höndum kennara, tónlistarkennara, stuðningsfulltrúa og íþróttaþjálfara auk eins nemanda í 10. bekk, sem auk þess að leika á gítar með hljómsveitinni tekur þátt með frumsamið lag og texta.

Þáttakendur í ár eru vel á þriðja tuginn og atriðin 17.

Söngvarakeppni Grunnskóla Húnaþings vestra fer fram miðvikudaginn 15. jan og hefjast leikar kl. 19.

Miðaverð er kr. 1.500 en ókeypis fyrir börn undir grunnskólaaldri.

Forsíðumynd: Eydís Ósk Indriaðdóttir