Sunnudaginn 1. október verður Stefanía Steinsdóttir sett í embætti sóknarprests á Ólafsfirði.

Athöfnin hefst kl. 14:00 og allir hjartanlega velkomnir.

Sr. Stefanía Guðlaug Steinsdóttir var fyrst ráðin tímabundið sem sóknarprestur í Ólafsfjarðarprestakalli í ágúst 2022.

Sr. Stefanía Steinsdóttir er fædd þann 2. maí árið 1980 og er fædd og uppalin á Akureyri.

Sr. Stefanía varð stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2001.

Hún tók BS gráðu í líftækni og hóf þá masters nám í auðlindafræði í Háskólanum á Akureyri.

Hún lauk BA gráðu í guðfræði árið 2015 og mag. theol. prófi frá Háskóla Íslands í júní árið 2017.

Sr. Stefanía var æskulýðsleiðtogi í Neskirkju árin 2015-2017 áður en hún vígðist til prestsþjónustu í Glerárprestakalli í ágúst árið 2017.

Þá hefur hún verið í afleysingu í Akureyrarkirkju og nú síðast í Ólafsfjarðarkirkju.

Sr. Stefanía er í sambúð með Sólveigu Helgadóttur markþjálfa og eru börn Stefaníu fjögur Guðrún Linda, Hákon Valur, Andrea og Dagur Valur.

Ólafsfjarðarkirkja var vígð 4. sunnudag í aðventu árið 1915.

Ólafsfjarðarkirkja var byggð eftir teikningu Rögnvaldar Ólafssonar árið 1915 úr steinsteypu og rúmaði 120 manns eða um tvo þriðju hluta íbúa staðarins á þeim tíma. Langt er því um liðið síðan kirkjan varð allt of lítil til flestra athafna, enda íbúar nú tífalt fleiri, og hefur aðstöðuleysi háð starfsemi allri. Hugmyndir um að byggja nýja kirkju hafa verið uppi um árabil en árið 1996 var hafist handa við stækkun gömlu kirkjunnar og byggingu safnaðarheimilis við hana.

Fanney Hauksdóttir arkitekt og Arkitekta- og Verkfræðistofa Hauks, Akureyri, tók að sér að hanna safnaðarheimili í viðbyggingu við kirkjuna og breytingar á henni sjálfri. Rafhönnun annaðist Raftákn ehf á Akureyri. Formaður byggingarnefndar var Óskar Þór Sigurbjörnsson. Framkvæmdir hófust sumarið 1996 með því að safnaðarheimili var steypt upp og gert fokhelt fyrir áramót þess árs og fyrsta áfanga verks þar með lokið.

Annar áfangi verksins hófst síðsumars 1997 og lauk honum með endur-vígslu kirkjunnar 13. sept. 1998. Verkið fólst í lengingu kirkjuskips um 5,3 metra sem felur í sér 40 fermetra stækkun á gólffleti, viðgerð og frágangi kirkjuskips, þ.á.m. endurnýjun þaks, glugga, sönglofts, gólfefna, bókstaf-lega allra innréttinga, og tengingu við nú rúmlega fokhelt safnaðarheimili. Kirkjan er nánast nýbygging því eftir stóðu aðeins steinhluti turns og veggendar kirkjuskips til hálfs. Þekja á turni var endurnýjuð og lögð zinki og öflugu loftræstikerfi komið fyrir í rjáfri.

Ólafsfjarðarkirkja er háð húsfriðunarlögum. Kostað hefur verið kapps um að færa sem flest til upprunalegs horfs í anda Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts.

Aðalverktaki kirkjubyggingarinnar eins og við 1. áfanga er Tréver h.f. og Vigfús Skíðdal Gunnlaugsson byggingarmeistari. Þá hefur Klemens Jónsson byggingarmeistari unnið ýmsa vandasama verkþætti endur-byggingarinnar m.a. endursmíði prédikunarstóls kirkjunnar sem Þorsteinn Esper smíðaði upphaflega.