Í vikunni kom hópur barna af Leikskólanum á Siglufirði og hitti Önnu Hermínu fyrir í vinnunni, þar afhentu þau henni jólapakka sem eiga að fara til þeirra sem minna mega sín.
Anna Hermína á Siglufirði hefur staðið fyrir jólagjafasöfnun undanfarin ár fyrir jólin í samvinnu við mæðrastyrksnefnd. Pakkana sendir hún síðan suður til mæðrastyrksnefndar sem úthlutar þeim til þeirra sem minna mega sín. Hún hefur þegar fengið afhenta 130 pakka frá íbúum og fyrirtæknum í Fjallabyggð, í fyrra sendi hún alls frá sér um 200 pakka.
Árið 2017 bárust beiðnir frá um 900 fjölskyldum til mæðrastyrksnefndar svo þörfin er brýn og jólin erfiður tími hjá mörgum fjölskyldum.
Anna Hermína sendir jólapakkana frá sér 10. desember en mæðrastyrksnefnd afhendir þá sínum skjólstæðingum 19. desember.
Að sögn segir Anna Hermína að hún sé að þessu í samvinnu við íbúa Fjallabyggðar og þegar hún fái hringingu frá forsvarsmönnum mæðrastyrksnefndar um að búið sé að afhenda gjafirnar þá séu jólin komin til hennar.
Þeir sem vilja láta gott af sér leiða geta komið pökkum til Önnu Hermínu eða hringt í hana í síma 848-9048
Mynd: aðsend