Nýjasta dagbók Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra er komin á vefinn.

30. desember 2024

Kæru íbúar í Húnaþingi vestra

Eitthvað hefur verið minna um dagbókarskrif það sem af er vetri. Nú eru áramót skammt undan og því ekki úr vegi að strengja þess heit að gera betur á nýju ári. Hluti skýringarinnar á stopulum skrifum er að finna í því að verkefnin á borðinu hlóðust eilítið upp á skrifborðinu vegna óvæntrar fjarveru í sumar. Ég er nú að verða búin að ná í skottið á mér og því ætti að gefast rými til dagbókarskrifa sem eru mér sjálfri mikilvæg auk þess að vera upplýsandi fyrir íbúa. Helstu verkefnum hefur verið gerð skil á heimasíðu sveitarfélagsins eins og vant er, ýmsir fundir, undirritanir samninga o.s.frv. Því sem ekki er gert skil þar hef ég komið á framfæri í dagbókinni. Mun ég halda því áfram á komandi ári.

Um áramót er til siðs að líta um öxl og skoða hvað var efst á baugi á liðnu ári. Ég ætla hins vegar ekki að gera það þó það hafi verið fjölmargt. Ég ætla að horfa fram á veg og nefna nokkur verkefni sem standa yfir eða eru á döfinni:

  • Vinna við aðalskipulag sveitarfélagsins en gildandi skipulag rennur út árið 2026. Þetta er umfangsmikil vinna sem kallar á aðkomu íbúa og má búast við hugmyndafundum á árinu um hvernig við sjáum samfélagið okkar þróast.
  • Húsnæðisuppbygging í samvinnu við Brák íbúðafélag. Áformað er að reisa 8 íbúðir á lóðinni norðan við blokkina á Norðurbraut.
  • Könnunarviðræður vegna hugsanlegrar saminingar við Dalabyggð eru að fara af stað. Sama hvernig sú vinna fer mun það vera gagnlegt að fá rýni á rekstur sveitarfélagsins. Í tengslum við þetta verkefni verður haldinn íbúafundur þar sem tækifæri gefst til að koma skoðunum á framfæri.
  • Áframhaldandi vinna við endurbætur á Félagsheimilinu Hvammstanga. Á árinu 2025 stendur til að klæða húsið að utan ásamt því að hefjast handa við verkefni innandyra.
  • Sórauknar viðhaldsframkvæmdir. Má þar nefna endurnýjun gatna, endurnýjun og lagfæringar gangstétta, áframhaldandi endurnýjun dreifikerfis hitaveitu o.m.fl.
  • Bygging aðstöðuhúss við íþróttavöllinn í Kirkjuhvammi. Framkvæmd sem gert er ráð fyrir að vinna í tveimur áföngum, hinn fyrri á þessu ári en hinn síðari á því næsta.
  • Opnun Tæknismiðju – FabLab í Félagsheimilinu sem er fyrsti vísir að samfélagsmiðstöð í húsinu.
  • Áframhaldandi vinna við uppsetningu samfélagsmiðstöðvar í Félagsheimilinu þar sem verður aðstaða fyrir fjölbreytt félagsstarf.
  • Mótun þjónustustefnu sveitarfélagsins og gerð umferðaröryggisáætlunar.
  • Til stendur að stofna starfshóp strax á fyrstu dögum komandi árs til að skoða möguleikann á að reisa björgunarmiðstöð á Hvammstanga þar sem yrði aðstaða fyrir viðbragðsaðila.
  • Áframhaldandi vinna í tengslum við mannauðsmál sveitarfélagsins en í þeim málum hafa verið stigin stór skref á undanförnum misserum með endurskoðun ýmissa stefna og áætlana, sameiginlegum fundi allra starfsmanna í fyrsta skiptið o.s.frv. Í upphafi árs verður sérstakt geðheilsuátak með það að markmiði að bæta líðan starfsmanna sveitarfélagsins. Í haust verður svo haldinn sameiginlegur fræðslu- og starfsdagur fyrir alla starfsmenn svo fátt eitt sé talið.
  • Skoðun á möguleikum til orkuskipta til sveita þar sem ekki er hitaveita til að mæta auknum raforkukostnaði.
  • Stóraukin upplýsingamiðlun með birtingu fylgigagna með fundargerðum á vef sveitarfélagsins. Er það lokaskrefið í innleiðingu á fundakerfi. Nú þegar er hægt að skrá sig í áskrift að málum. Er þá sendur tölvupóstur í hvert skipti sem tiltekið mál kemur inn á borð nefnda sveitarfélagsins.
  • Áframhaldandi vinna með eldri borgurum að lífsgæðakjarna með íbúðabyggingu á reit vestan við Nestún.
  • Áframhaldandi vinna við innleiðingu á Heilsueflandi samfélagi, Barnvænu sveitarfélagi og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Þessi upptalning er alls ekki tæmandi en gefur ágætis mynd af þeim fjölmörgu spennandi verkefnum sem eru framundan. Þetta eru metnaðarfull verkefni en um leið fyllilega raunhæf. Þau eru tilkomin vegna framsýni og dugnaðar sveitarstjórnar og mikilli vinnu okkar frábæra starfsfólks. Öll þessi verkefni eru til þess ætluð að bæta búsetuskilyrði í sveitarfélaginu og efla það enn frekar.

Ég hef þá bjargföstu trú að árið 2025 verði gott ár. Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir góð samskipti og ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða. Einkum þakka ég hlýhug og góðar óskir í veikindum mínum í sumar. Samfélagið í Húnaþingi vestra er einstakt og ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að vinna að framfaramálum í sveitarfélaginu sem mér þykir svo óskaplega vænt um.

Gleðilegt nýtt ár.