Íþróttahreyfingin fær 500 m.kr. fjárframlag frá stjórnvöldum sem mótvægisaðgerð gegn tekjutapi af völdum heimsfaraldurs. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnar á föstudag.
Samkomutakmarkanir af völdum heimsfaraldurs COVID-19 hafa sett verulegan svip á íþróttastarfið undanfarin misseri og hefur íþróttahreyfingin orðið af verulegum fjármunum vegna áhrifa þeirra á íþróttaviðburði. Einnig hefur umtalsverður kostnaðarauki fylgt þátttöku í keppnisstarfi sem sætt hefur samkomutakmörkunum.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:
„Stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að styðja við íþróttahreyfinguna og gera henni kleift að sigla í gegnum ólgusjó heimsfaraldurs. Með þessum aðgerðum sýna stjórnvöld eindreginn vilja til að halda íþróttastarfinu gangandi, stóru jafnt sem smáu, með þeim jákvæðu áhrifum sem það hefur á allt samfélagið.“
Útfærsla úthlutunar og framkvæmdar verður unnin í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ). ÍSÍ verður falið að óska eftir umsóknum um stuðning vegna fjárhagslegra afleiðinga kórónuveirunnar á einingar íþróttahreyfingarinnar. Sérsambönd, héraðssambönd og íþróttabandalög, íþróttafélög með aðild að ÍSÍ og UMFÍ og deildir innan íþróttafélaga geta sótt um stuðning.
Umsækjendur þurfa að hafa orðið fyrir tekjutapi eða kostnaðarauka vegna íþróttaviðburða sem þurfti að fella niður eða breyta verulega vegna samkomutakmarkana af völdum COVID-19. Sýna þarf fram á veruleg áhrif á rekstur og starf. Við úthlutun styrkja verður tekið tillit til annars stuðnings sem umsækjendur hafa notið. Kröfur til umsókna verða sambærilegar og voru við úthlutun stuðnings með sértækum hætti á árinu 2020.
Sjötíu prósent fjármagnsins rennur til sérsambanda, héraðssambanda og íþróttabandalaga og 30% til íþróttafélaga þar sem sérsambönd, héraðssambönd og íþróttabandalög hafa ekki fengið bætt tjón með sama hætti og íþróttafélög.
Mynd/aðsend