Dagana 3. til 8. júní gekk yfir Norðurland slæmt veður með mikilli úrkomu og kulda. Veðrið hafði mikil og neikvæð áhrif á búfénað, jarðrækt bænda og á aðra þá sem eiga sitt undir því komið að tíðarfarið sé betra en var þessa daga.
Meðan veðrið gekk yfir voru þjónustufulltrúi landbúnaðarmála og fleiri starfsmenn sveitarfélagsins Skagafjarðar í stöðugu sambandi við bændur og aðra um ástandið. Þær upplýsingar og aðrar sem bárust voru skráðar niður og er ljóst að tjón manna er umtalsvert vegna skepnumissis, hugsanlegra áhrifa veðurs á uppskeru og tjóns sem erfitt er að meta að svo stöddu vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust í yfirfullum gripahúsum. Þrátt fyrir verulega slæmt ástand um tíma barst þó ekki útkall um aðstoð í gegnum 112 en það er sú leið sem auglýst var umrædda daga og ætlast er til að allir fari sem leita þurfa eftir opinberri aðstoð í neyð.
Á meðan á veðrinu stóð (fimmtudaginn 6. júní), skipaði Matvælaráðuneytið sérstakan viðbragðshóp með fulltrúm matvælaráðuneytis, innviðaráðuneytis, Bændasamtaka Íslands, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Almannavarna ríkisins og fulltrúum lögregluembættanna á Norðurlandi vestra og eystra. Hópurinn setti meðal annars af stað úthringingar til bænda á þeim svæðum þar sem talið var að ástandið væri verst.
Vinna viðbragðshópsins er ennþá í gangi og beðið er niðurstöðu en ljóst er samt að endanlegt heildar afurðatjón bænda mun ekki liggja fyrir fyrr en í haust þegar endanlegar afurðir og uppskera hafa verið metin og mæld. Samkvæmt okkar mati urðu þeir bændur sem bjuggu hæst m.v. hæð yfir sjó verst úti vegna veðursins en á þeim svæðum urðu snjó þyngsl mun meiri en nokkrum tugum metra neðar í landinu.
Landbúnaðar- og innviðanefnd Skagafjarðar skorar á fyrrgreindan viðbragðshóp á ná fram heildstæðu mati á því tjóni sem bændur í öllum greinum urðu fyrir og að í framhaldinu fái tjónþolar afurðatjón sitt bætt. Landbúnaðar- og innviðanefnd vill benda bændum á að kynna sér upplýsingar á heimasíðu Bændasamtaka Íslands https://www.bondi.is/baendavaktin-juni.