Fyrir nokkrum árum hengdi ég upp litla bastkörfu í þakskeggið fyrir ofan svalirnar á húsinu mínu hér á Siglufirði í von um að fuglar myndu gera sér þar hreiður.
Í nokkur sumur kom þröstur og verpti í körfuna, mér og mínum til mikillar ánægju. Það er mjög notaleg tilfinning að fugl vilji verpa í eitthvað sem maður hefur gert.

Svo kom að því að karfan var orðin svo léleg að ég var hræddur um að hún dytti í sundur með voðalegum afleiðingum.  Ég fann aðra körfu, dálítið stærri, og hengdi upp í stað þeirrar gömlu og vonaði að fuglinn héldi sínu striki. Svo varð þó ekki, ekkert varp í fyrrasumar, en nú í vor sá ég fugla kanna aðstæður í nýju körfunni, en hún var greinilega ekki nógu góð á einhvern hátt, enginn vildi gera sér þar hreiður.

Við höfum svalahurðina hjá okkur stundum opna í hálfa gátt á nóttunni, og einn morguninn var fuglinn byrjaður að gera hreiður ofan á hurðinni !!  Þetta var auðvitað hið mesta glapræði fyrir fuglinn, því við vildum geta lokað svalahurðinni þegar okkur hentaði.  Þessi hreiðurgerð var því stöðvuð umsvifalaust og byggingarefnið fjarlægt.  Við fengum gríðarlegar skammir fyrir – frá fuglinum – en aftur kviknaði sú von að fuglinn léti til leiðast og notaði frekar nýju fínu körfuna, en ekkert varð úr því.

 

Efst er nýja fína karfan sem var ekki nógu góð, svalahurðin miklu betri !!

 

Mér datt í hug að nýja karfan væri kannski of stór eða stæðist ekki bygginarstaðla þrasta á einhvern mér óljósan hátt, og setti tvær minni til viðbótar í loftið fyrir ofan svalirnar. Svo var beðið, en sama sagan, – enginn vildi verpa í körfurnar mínar.

Svo var það núna um daginn að það dró til tíðinda.  Við tókum eftir því að búið var að gera hreiður og verpa 4 eggjum – í blómaker alveg við útidyrnar hjá okkur!

Þetta var auðvitað mjög skemmtilegt, þrátt fyrir áhyggjur heimilisfólks yfir því að kettir eða önnur dýr gætu auðveldlega fundið hreiðrið og eyðilagt það.  Ég tók vefmyndavél og festi upp á vegg utan á húsinu og beindi henni að hreiðrinu, þannig að nú verður vonandi ungað út í beinni, nema eitthvert óhræsi komi og éti eggin – eða ungana þegar þar að kemur !

Lesendur Trölla.is geta nú fylgst með varpinu í beinni hér á síðunni, með því að smella á smámynd í litlum glugga hægra megin þar sem stendur VEFMYNDAVÉLAR.  Þar má einnig finna fleiri vefmyndavélar, og vonandi kemur fljótlega myndavél með yfirlitsmyndir frá Siglufirði, en beðið er eftir leyfi bæjaryfirvalda til að setja upp slíka vél.

 

Myndir: Úr vefmyndavél og Kristín Sigurjónsdóttir
Texti: Gunnar Smári Helgason.