Þann 23. september, eru liðin 35 ár frá stofnfundi FÁUM, Félags áhugamanna um minjasafn.
Strax í upphafi voru stórar hugmyndir kynntar og framtíðaráhorfin mjög skýr. Fyrsta verkefni áhugamannafélagsins var að bjarga Róaldsbrakka frá glötun. Í Róaldsbrakka var fyrst og fremst horft til söltunarvinnunnar – en nauðsynlegt var að gera öðrum þáttum sögunnar: bræðslunni og veiðunum, góð skil, og var þess vegna ráðist í byggingu Gránu og Bátahússins.
Í fimmtán ár var unnið sleitulaust að uppbyggingu safnsins. Með stórhuga framkvæmdum varð hrörlegur Róaldsbrakki að glæsihúsi, tvö stór sýningahús risu og „gamalt og aflóga dót“ breyttist í „dýrgripi“ á einu stærsta safni landsins. Svo mikils og víðtæks stuðnings nutu þessar framkvæmdir að tala má um þjóðarátak.
Þrotlaus vinna, krefjandi aðstæður og erfið viðfangsefni lýsa líklega best því sem á gekk á árunum 1989 – 2004. Farið var af stað með viljann að vopni, án fjárstuðnings frá ríki eða sveitarfélagi. Heimamenn efuðust margir um framkvæmdirnar og höfðu ekki trú á málstaðnum. Síldarminjasafn – yrði það virkilega aðdráttarafl? Var ekki allt eins gott að rífa þessa gömlu húshjalla og henda þessu gamla drasli? Horfa til framtíðar og hætta að treysta á síldina – sem hafði sannarlega brugðist.
Það má með sanni segja að uppbygging Síldarminjasafnsins sé ævintýri líkust – þar sem hugsjónir og hugrekki þeirra sem að uppbyggingunni stóðu skiptu sköpum og eru í raun grundvöllur alls þess sem á eftir fór.
Myndir og heimild/Síldarminjasafn Íslands