Fyrir sléttum þremur árum ritaði ég þáverandi stjórnarformanni Íslandspósts opið bréf.  Fór ég þar yfir framþróun og síðan afturför í þjónustu Íslandspósts, og ekki síst fáránleika skipulags póstflutninga fram og aftur um landið.  Skemmst er frá að segja að lítið varð um svör, önnur en þau að skerða þjónustuna enn frekar.  Í engu hefur skipulagi verið breytt þó ærin ástæða sé til.

Ekki alls fyrir löngu veitti ríkið Íslandspósti 500 milljón króna neyðarlán svo sem greint var frá í fréttum.  Nú í vikunni var síðan felld út úr fjárlagafrumvarpi við aðra umræðu, lánsheimild til Íslandspósts upp á 1500 milljónir.  Ástæðan sögð vera sú að lánið myndi ekki innheimtast.  Með öðrum orðum, Íslandspóstur er kominn í þrot.

Það eru slæmar fréttir, en ekki síður slæmt hve lítið fer fyrir umræðu um kjarna málsins, sem er grunnþjónusta við íbúa landsins, ekki síst hinar dreifðu byggðir.  Af ástæðum fyrir hinni slæmu stöðu er nefnt, að fjárfest hafi verið óvarlega í dótturfyrirtækjum, að Íslandspóstur veiti kaupglöðum Íslendingum nánast frían flutning sendinga frá Kína og mikill samdráttur sé í bréfasendingum innanlands.

Komast má út úr lélegum fjárfestingum.  Það ætti einnig að vera sjálfgefið, ekki síst m.t.t. samkeppnisstöðu verslunar í landinu, að hætta að niðurgreiða millilandaflutninga frá Kína.  Hitt er þó verst, að fyrirtækið hefur á liðnum árum markvisst hrakið frá sér sína tryggu viðskiptavini og eigendur um land allt.  Það er einfaldlega ekki boðlegt í dag að það taki viku að koma bréfum milli staða á Íslandi.

Þessi alvarlega staða Íslandspósts nú er á ábyrgð stjórnvalda, enda vandinn ekki nýtilkominn.  Menn geta ekki skýlt sér á bak við óljósa alþjóðasamninga eða samkeppnislög.  Samninga þarf að taka upp, og ef samkeppnislög hamla því að hægt sé að dreifa pósti með skynsamlegum hætti um landið, þá verður einfaldlega að breyta samkeppnislögum.  Þau voru ætluð til þess að bæta hag íbúa landsins, en alls ekki til að koma í veg fyrir eðlilega þjónustu.

Það er glórulaust að keyra nokkur kíló af pósti eða pökkum á sér bíl til Grenivíkur frá Akureyri, þegar einfalt og margfallt ódýrara er að semja við Hafstein okkar um að taka póstinn í sínum daglegu vöruflutningaferðum.  Á sama hátt er galið fyrir eitt samfélag að niðurgreiða almenningssamgöngur með annarri hendi og reka svo póstdreifinguna með hinni, einnig með miklu tapi, þegar hægt væri að samþætta og flytja póst og fólk með sömu bílum.  Fáránlegt er líka að láta bréf milli allra staða á landinu hafa viðkomu í Reykjavík, jafnvel innanbæjarpóst á Grenivík.

Þannig trúi ég að vel sé hægt að færa þjónustu til hins besta horfs sem komið var á fyrir allmörgum árum, án þess að óyfirstíganlegt tap fylgi.  Á örskotsstundu var breytt lögum um fiskeldi þega mikið var talið liggja við, þó verulega umdeilt væri.  Hér er undir óumdeild grunnþjónusta við alla landsmenn, þar með talið Vestfirðinga.  Stjórnvöld bera ábyrgð og nú reynir á hvernig þau axla þá ábyrgð.

Um útburði og útburðarvæl má lesa í þjóðsögum.  Segja má að Íslandspóstur sé eitt af óskabörnum þjóðarinnar frá síðustu öld, þegar framfarir hófu innreið sína til landsins fyrir alvöru.  Það er nú í höndum okkar ágætu ráðamanna í hvaða skilningi pósturinn verður borinn út á Íslandi!

 

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps