Einstaklingum sem sæta smitgát í kjölfar smitrakningar verður ekki lengur skylt að fara í hraðpróf við upphaf og lok smitgátar frá og með morgundeginum en þurfa að fara gætilega í 7 daga og í PCR próf ef einkenni koma fram. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest reglugerð þessa efnis. Með reglugerðinni er einstaklingum í einangrun jafnframt veitt takmörkuð heimild til útiveru.
Smitgát
Breytingarnar á reglum um smitgát eru gerðar í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Í minnisblaði hans til ráðherra kemur fram að af tæplega 16.500 einstaklingum sem sættu smitgát á fyrstu 16 dögum þessa árs greindist aðeins um 1% með Covid-smit í kjölfar prófs. Stór hluti þessa hóps voru börn á skólaaldri.
Líkt og verið hefur mun rakningateymi leggja mat á hverjir skuli sæta sóttkví og hverjir smitgát með hliðsjón af því hve mikið hver og einn hefur verið útsettur fyrir smiti. Hjá þeim sem útsetningin er metin óveruleg gilda óbreyttar reglur um smitgát, að öðru leyti en því að smitgát stendur nú yfir í 7 daga og ekki er skylt að taka hraðpróf í upphafi eða við lok hennar. Ef einstaklingur í smitgát finnur fyrir einkennum sem bent geta til Covid-19 skal hann fara í PCR-próf.
Þeir sem eru í smitgát mega sækja vinnu og skóla og sinna nauðsynlegum erindum. Þeir þurfa að hafa hugfast að smit er ekki útilokað, sýna aðgát, gæta vel að persónulegum sóttvörnum og fara þegar í stað í PCR sýnatöku ef einkenni um smit koma fram. Meðan á smitgát stendur skal takmarka samneyti við viðkvæma einstaklinga og aðra eins og hægt er.
Útivera meðan á einangrun stendur
Samkvæmt gildandi reglum mega einstaklingar í einangrun vegna Covid-19 fara út á svalir eða í einkagarð við heimili sitt ef heilsa leyfir. Með þeirri breytingu sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið verður viðkomandi heimilt að fara í gönguferð í nærumhverfi heimilis síns ef heilsa leyfir. Þeir þurfa að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum og mega ekki fara á fjölsótt svæði. Miðað er við tvær gönguferðir á dag, að hámarki 30 mínútur í senn. Ekki unnt að bjóða fullorðnum sem eru í einangrun í sóttvarnahúsum útiveru en slíkt verður í boði fyrir börn.
Mynd/aðsend