Sunnudaginn 27. október s.l. gengu nokkrir bæjarbúar fram á blóðuga slóð við veginn austan Siglufjarðar.

Þar við hliðin lágu hjólför og í blóðdreifinni forhlað úr haglaskoti. Af ummerkjum mátti merkja að rjúpa hefði verið skotin –jafnvel út um bílglugga. Þarna er mikil trjárækt þar sem rjúpur og fleiri fuglar eiga griðland. Og ekki má gleyma þeim friði og öryggi sem sveitarfélagið Fjallabyggð á að tryggja því fólki sem á þar heimili.

Fimm dögum síðar mátti enn heyra skothvelli, nokkru ofar nærri öðrum sumarhúsum. Þarna voru á ferð menn á fínum jeppa og væntanlega með glæsilegan og dýran búnað.

Hvar næst? Það mætti hæglega laumast til að skjóta rjúpur í trjágróðrinum ofan við bæinn – eða í Skógræktinni, þar ber nú oft vel í veiði fyrir svona kappa.

Haft var samband við Dúa Landmark, fyrrv. formanns Skotvíss og höfund þeirrar ágætu bókar „Gengið til rjúpna“ og hann spurður álits á ofangreindu.

Hann svaraði: „Það er ekki leyfilegt að veiða í sumarhúsabyggð sem er skipulagt svæði innan sveitarfélagsins líkt og sjá má á myndinni hér neðar. Ef þetta athæfi endurtekur sig mæli ég með að það verði tilkynnt til lögreglu.
Það virðist nokkuð ljóst að þarna hafi verið brotin bæði lögreglusamþykkt staðarins og vopnalög.“

Í 11. gr lögreglusamþykktar Fjallabyggðar stendur: 
Meðferð skotvopna á almannafæri er bönnuð
nema með sérstakri undanþágu frá lögreglustjóra.

Úr 21. gr vopnalaga:
Ekki má hleypa af skoti á vegi, yfir veg, úr ökutæki, á almannafæri eða annars staðar þar sem hætta getur stafað af, nema nauðsyn krefji. Ekki má hleypa af skoti á annars manns landi eða skjóta yfir annars manns land án leyfis landeiganda eða ábúanda nema lög mæli öðruvísi fyrir um.

  1. gr : Vopnaburður á almannafæri er bannaður.

Aðsend grein.
Ljósmynd: ónefndur bæjarbúi. Skipulags-loftmynd. Mynd af bókarkápu Gengið til rjúpna.