Þann 1. júlí 2023 tók gildi bann við varphænsnahaldi í hefðbundnum búrum. Í úttektum Matvælastofnunar á eggjabúum í haust kom í ljós að varphænur voru enn í búrum á tveimur stöðum. Eigendur þessara fugla brugðust við kröfum Matvælastofnunar um að hætta notkun búranna og síðustu hænur voru fjarlægðar úr þeim í desember 2023. Matvælastofnun getur því upplýst að hænsnahald í hefðbundnum búrum hér á landi hefur lagst af.

Með gildistöku reglugerðar um velferð alifugla árið 2015 var eggjabændum gefinn sjö ára frestur, til loka árs 2021, til að breyta varphúsum með hefðbundnum búrum í varphús með innréttuðum búrum eða í lausagönguhús. Á þeim tíma voru um 72% varphænsna landsins haldin í hefðbundnum búrum. Frestur til að hætta notkun á þeim var tvívegis framlengdur en ákvæðið tók endanlega gildi þann 1. júlí 2023. Á þeim rúmlega átta árum hættu nokkrir eggjabændur framleiðslu í stað þess að breyta húsunum, aðrir breyttu varphúsum í lausagönguhús. Enginn eggjabóndi ákvað að taka í notkun innréttuð búr. Í eftirlitsátaki haustið 2023 gekk Matvælastofnun úr skugga um að á öllum eggjabúum væri notkun á hefðbundnum búrum hætt. Á tveimur stöðum þurfti Matvælastofnun að gera kröfur um úrbætur þar sem í ljós kom að hænur voru enn í búrum. Báðir aðilar brugðust við og síðustu hænur voru fjarlægðar í desember sl. án þess að grípa þyrfti til þvingunaraðgerða.

Allar varphænur landsins hafa núna kost á að geta krafsað og sandbaðað sig í undirburði í lausagönguhúsum, þær geta orpið í varpkössum, hvílt sig á setprikum í öruggri hæð frá meintum rándýrum eins og þeim er eðlilegt og síðast en ekki síst hafa þær möguleika á að hreyfa sig um varphúsið. Með þessu skrefi hefur mikið áunnist í bættri velferð varphænsna.

Mynd/aðsend