SPÁ FYRIR VERSLUNARMANNAHELGINA (gerð mánudaginn 29. júlí)

Veðrið um verslunarmannahelgina gæti orðið nokkuð sérstakt á margan hátt fyrir tilstilli óvenju djúprar lægðar sem verður á ferðinni vel fyrir sunnan landið segir á vefsíðunni Blika.is.

Þessari djúpu lægð er spáð til austurs fyrir sunnan landið. Með henni blástur eða allhvass austanstæður vindur á miðvikudag og fimmtudag. Skil lægðarinnar fara jafnframt norður yfir landið og með rigningu. Lægðin tengist ferðalagi nokkuð óvenjulegs háloftahvirfils alla leið frá Íshafinu og yfir sunnanvert Grænland. “Dúðadurtur” kallaði ég hann til aðgreiningar frá öðrum svipuðum, en minni sem hafa leikið nokkuð lausum hala að undanförnu.

Undir helgina er síðan gert ráð fyrir því að lægðin beini til okkar nýjum skammti af röku, en jafnframt hlýju lofti. Þá rignir talsvert suðaustan- og austanlands.

Á laugardag er að sjá að það gæti hvesst norðan- og norðvestantil á landinu. Jafnframt hlýtt loft. Nokkuð sérstakt að sjá svona eindregin hlýindi með NA-átt! Á Vestfjörðum og á Snæfellsnesi gæti hiti hæglega farið yfir 20 stig í blæstrinum. Þar verður að líkindum þurrt, en áfram rignir a.m.k. með köflum um austanvert landið. Suðvestantil verður að líkindum á laugardag minna úr blæstrinum og kannski bara hvað best veðrið á höfuðborgarsvæðinu á laugardag, ef horft er saman á vind, hita og líkur á þurru veðri. Hitinn í Reykjavík gæti farið í 17 til 19 stig ef sólin nær í gegn og yrði þar með einn af bestu dögum sumarsins.

Á sunnudaginn mun að öllum líkindum draga rólegar úr vindinum norðan- og norðvestantil og eins rigningunni austantil. Áfram þurrt sunnan- og vestatil.

Á mánudag gæti snúist til N-áttar á landinu og með hægt kólnandi og fremur aðgerðarlitlu veðri.

Fyrir þá sem eru að plana ferðalög eftir verslunarmannahelgina er margt sem bendir til þess að þessu sumarlægða-skaki ljúki og við taki rólegra veður með þurrum og jafnvel sólardögum, einkum þá norðan- og austanlands.

Óvissan nú á mánudegi um megindrætti helgarspárinnar er metin minni en oft áður. Nánast allar safnspár Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar gera ráð fyrir þeirri þróun veðursins sem hér er lýst. Einnig spá GFS (Bandaríska hnattkeyrslan). Óvissan er einkum með túlkun spárinnar staðbundið og tímasetningu breytinga.

Veðurkortin 4 sem fylga eru úr miðnæturkeyrslu Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar 29. júlí. Þau eru fengin af Brunni Veðurstofunnar. Það fyrsta á fimmtudag og síðasta á sunnudag. Öll hafa þau gildistíma kl. 12 á hádegi.