Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.
Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).
Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.
Yfir fjöllin fagurblá
Einhverju sinni vorum við nokkrir strákar beðnir um að koma og hjálpa til við að bera kassa inn í geymsluna við íshúsið á bakkanum. Dyrnar að geymslunni voru stórar og gátu bílar bakkað alla leið inn í dyraopið.
Við vorum bara litlir strákar og ekki stæðilegir né sterkir. Kassarnir voru frekar þungir og suma urðum við að bera tveir saman. Það voru bækur í þessum kössum, og sumir þeirra voru rakir á botninum og bækurnar örugglega ónýtar. Ég man ekki hverjir voru þarna fullorðnir, kannski skiptir það engu máli, við veltum því meira fyrir okkur hvort við fengjum eitthvað fyrir puðið.
Þegar allir bókakassarnir voru komnir upp á loft var kallað á okkur. Fyrir framan okkur var stór bókakassi opinn. Fullorðinn maður sagði okkur að velja bók, bara einhverja bók, sem þökk fyrir hjálpina. Ég sá strax að þarna voru mest barnabækur og þekkti nöfn nokkurra höfunda.
Ég valdi mér bók sem heitir “Yfir fjöllin fagurblá” eftir Ármann Kr. Einarsson. Þessa bók las ég síðan aftur og aftur og þótti mjög vænt um hana og ég á hana ennþá og passa upp á hana. Ég held að þessi bók séu fyrstu vinnulaunin mín.
Seinna fékk ég þá skýringu á þessum bókakössum. Vigfús Friðjónsson hafði eignast heilmikið af bókum og komið þeim fyrir í geymslu í kjallaranum á Borgarkaffi við Aðalgötuna.
Svo kviknaði í Borgarkaffi og það var sprautað heilmiklu vatni inn í húsið og það flaut niður í kjallara. Til að forða bókunum frá frekari skemmdum voru þær fluttar í geymsluna í íshúsinu á bökkunum.
Hvað síðan varð um bækurnar er önnur saga.
Forsíðumynd/Einar Albertsson