Samkvæmt venju fóru fyrri og seinni sauðfjárleitir í Dalvíkurbyggð fram nú í september. Að sögn fjallskilastjóranna þriggja, voru fyrri göngur heldur erfiðar sökum úrkomu og mikillar þoku sem gerði leit að sauðfé erfiða. Seinni göngur sem fóru fram 19.-21. september gengu hins vegar vel. Á laugardeginum var sól og blíða sem kom sér vel þar sem bændur hafa tekið tæknina í notkun og hafa afnot af þyrlu á svæðinu sem léttir þeim störfin mikið.
Góðar heimtur voru í seinni göngum og eru bændur sammála um að fé komi nokkuð pattaralegt af fjalli, greinilega verið góð spretta í blíðunni sem við nutum í sumar. Eins og gengur og gerist eru alltaf einhverjar eftirlegukindur sem láta hafa fyrir sér og eru bændur nú í eftirleitum til að koma öllu fé heim í hús fyrir veturinn.
Hrossasmölun fer fram nú um helgina.
Eitt er að smala fé af fjalli og annað er að koma því í rétt þar sem það er dregið í dilka. Nú í lok sumars fór Dalvíkurbyggð í viðhald á Árskógsrétt, en komin var veruleg þörf á endurbótum á réttinni. Starfsmenn Tréverks ehf. sáu um endurbæturnar og var það samdóma álit bænda og sauðfés á ströndinni að vel hafi tekist til og réttin komin í fínt stand.
Mynd/Dalvíkurbyggð