Málafjöldi marsmánaðar er áþekkur fyrri mánuðum ársins segir á vefsíðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Alls voru 566 mál skráð til úrvinnslu hjá embætti lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Umferðin var fyrirferðamikil og flest verkefni lögreglunnar í mánuðinum tengd umferðamálum.
Lögreglan var til aðstoðar við borgarana í 10 málum, í einhverjum tilvikum var aðstoð veitt vegna veikinda en einnig vegna ölvunar, og annarra minni háttar mála til að mynda aðstoð til handa útlendingum vegna útfyllingar tjónaforms.
Þá var lögreglan til aðstoðar við opinbera aðila í 5 tilvikum, tvö þeirra voru vegna skráningar á lögheimili og staðfestingu skilríkja erlendra ríkisborgara. Hin málin voru aðstoð við félags- og heilbrigðisyfirvöld. Meðal annars var óskað eftir forgangsakstri lögreglu til að koma lækni til sjúklings. Blessuð dýrin þurftu einnig aðstoð okkar í mánuðinum en kallað var til aðstoðar lögreglu vegna lausagöngu hrossa og sauðfjár þrisvar sinnum á 10 daga tímabili og þar af var eitt hross fast í girðingu.
Skráð voru tæplega 40 mál er varða eftirlit með útlendingum en lögreglan hefur ríka eftirlitsskyldu með þeim útlendingum sem höfð eru afskipti af og leita aðstoðar lögreglu. Flest slík afskipti í mánuðinum sem leið eru tilkomin vegna hraðaksturs.
Eigendur fimm bifreiða voru boðaðir til skoðunar með bifreiðar sínar þar sem lögbundinn frestur til þess var liðinn. Þá voru skráningarmerki bifreiðar einnig fjarlægð af sama tilefni. Ökumenn 7 bifreiða voru sektaðir vegna ólöglegrar lagningar.
Tilkynnt var um minniháttar eignarspjöll á bifreið og minniháttar eldssvoða, en ekki var um að ræða slys á fólki.
Forvarna,- og fræðsluverkefni voru 16 talsins og voru þau mjög fjölbreytt. Lögreglumenn heimsóttu leikskóla, tóku þátt í íþróttatíma grunnskóla ásamt því að taka þátt í valgreinadegi unglinga í Húnavatnssýslum. Þá var nemendum FNV boðið að reyna við hluta inntökuprófs í lögreglufræði sem reynir á styrk og úthald. Einnig var haldinn foreldrafundur í Varmahlíðarskóla og kynning haldin fyrir eldri borgara á aðalfundi Félags eldri borgara í Skagafirði. Því til viðbótar voru nemendur grunnskóla af höfuðborgarsvæðinu mættir til starfskynningar hjá embættinu. Þá tekur lögregla einnig þátt í verkefnum sem varða samvinnu stofnana sem og farsæld barna.
Við höfum unnið markvisst að því að efla umræðu í samfélaginu um alvarleika ofbeldis í nánu sambandi og möguleg úrræði lögreglu og/eða annarra kerfa. Í marsmánuði sem leið var tilkynnt um heimilisofbeldi og tengd brot. Rannsóknir benda til þess að slík mál séu síður tilkynnt til lögreglu, þrátt fyrir að algengi þeirra í samfélaginu sé nokkuð.
Alls voru 184 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, langflestir líkt og áður á 110-120 km hraða. Þó nokkrir ökumenn óku yfir 120 km hraða, og nokkrir yfir 130 km hraða. Sá sem hraðast ók mældist á 143 km hraða. Viðurlög við slíkum hraðakstri eru sekt upp á 150.000 kr og 3 punktar í ökuferilsskrá. Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu. Þá voru 4 ökumenn uppvísir af því að aka bifreið án þess að hafa tilskilin réttindi.
Afskipti voru höfð af þremur ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis- og/eða vímuefna og mega þeir búast við sviptingu ökuréttar. Tilkynnt var um 8 umferðarslys án teljandi meiðsla en nokkuð eignatjón varð, og í einhverjum tilvikum voru bifreiðar óökufærar og skráningarmerki þeirra fjarlægð í kjölfarið. Að minnsta kosti var í einu tilviki grunur um akstur undir áhrifum efna. Þá voru einnig mál tengd vörslu fíkniefna.
Tilkynnt var um ljósleiðaraslit, nokkuð oft barst tilkynning til lögreglu frá vegfarendum um aðfinnsluvert aksturslag og lagningu bifreiða víða um umdæmið. Tilkynnt var um eitt vinnuslys er starfsmaður féll í tröppum og slasaðist. Um miðjan mánuðinn fylgdi lögreglan flutningabifreiðum sem ferjuðu hús á milli landshluta.
Þrátt fyrir fuglasöng og notalegtheit þá er enn talsverður snjór í umdæminu, sér í lagi til fjalla. Við brýnum fyrir fólki að gæta varúðar og ávallt fylgjast með veðri og færð, hyggi fólk á ferðalög.