Þegar Menntaskólinn á Tröllaskaga var stofnaður haustið 2010 voru starfsmenn 9 og nemendur voru 72 á fyrstu önn. Þó ekki séu nema rúm 13 ár frá þeim merku tímamótum að fá framhaldsskóla í sveitarfélagið þá hefur mikið vatn runnið til sjávar frá fyrstu dögunum. Skólastarfið hefur þróast ár frá ári og fjöldi starfsfólks og nemenda vaxið hröðum skrefum. Nemendur eru nú rúmlega 500 og starfsmannahópurinn telur 28 manns.
Útkoma úr valinu á Stofnun ársins meðal ríkisstofnanna sýnir að MTR er sérlega góður vinnustaður því þar hefur skólinn verið í efstu sætum undanfarin 9 ár. Í könnuninni sem liggur til grundvallar valinu er spurt um starfsánægju, starfsaðstæður og kjör hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og sjálfseignarstofnunum. Niðurstöður sýna að starfsandi er mjög góður og starfsmannavelta hefur verið með minnsta móti. Einhverjar breytingar verða þó á hverju skólaári og í upphafi þessa skólaárs barst skólanum góður liðsauki; nýr kennari, sem leysir af annan í námsleyfi, og nýr fjármálastjóri.
Inga Þórunn Waage er nýr kennari við skólann og kennir hún ensku og mannkynssögu. Hún lauk kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri vorið 2022 og var í æfingakennslu hjá MTR í námi sínu. Inga Þórunn er fædd í Reykjavík og tók stúdentspróf af nýmálabraut frá Menntaskólanum í Reykjavík. Eftir það lá leiðin til Ástralíu þar sem hún sótti sér diplómu í ljósmyndun áður en hélt aftur á heimaslóðir og lauk BA í ensku við Háskóla Íslands. Eftir BA námið flutti hún til Berlínar og nam enskar bókmenntir, menningu og miðlun við Humboldt Univerität zu Berlin. Eftir að meistaranámi lauk vann hún í Berlín og Barselóna í nokkur ár við þýðingar, kennslu og textasmíðar. Færði sig svo um set og hóf störf hjá hugbúnaðarfyrirtækinu GODO í Reykjavík og vann þar til 2019. Þá söðlaði hún enn um og flutti norður á Siglufjörð með fjölskylduna og hóf störf hjá Síldarminjasafni Íslands þar sem hún vann við varðveislu og miðlun þar til hún hóf störf hjá MTR í haust.
Nýr fjármálastjóri er Elsa Guðrún Jónsdóttir sem er fædd og uppalin á Ólafsfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá skíðamenntaskólanum í Geilo í Noregi. Þá lá leiðin í Háskólann á Bifröst þar sem hún lauk BS í viðskiptalögfræði og meistaraprófi í lögfræði. Síðan hefur hún bætt við sig vottun frá Háskólanum í Reykjavík sem fjármálaráðgjafi og tekið styttra nám um mannlega millistjórnandann. Menntunarþörfin er enn til staðar og er hún nú skráð í nám í menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Elsa starfaði síðustu ár sem fjármálaráðgjafi og útibússtjóri í Arion banka og öðlaðist þar mikla reynslu af skjalavörslu og öðrum verkefnum sem nýtast henni vel í nýju starfi. Elsa Guðrún er margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu og var fyrsta konan sem keppti á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd í þeirri grein.