Þann 12. desember fengu 35 einstaklingar í Fjallabyggð jólaaðstoð frá Rauða krossinum við Eyjafjörð, Mæðrastyrksnefnd, Hjálpræðishernum á Akureyri og Hjálparstarfi kirkjunnar.
Jólaaðstoðin er í formi gjafakorts með 30.000 – 50.000 kr. úttekt, fer eftir fjölskyldustærð hvaða upphæð er á kortunum.
Sigríður M. Jóhannsdóttir formaður jólaaðstoðarinnar segir að umsóknir hafi aukist á milli ára á Eyjafjarðarsvæðinu og í Fjallabyggð. Alls bárust 320 umsóknir um aðstoð í ár.
Send voru út 2000 bréf til fyrirtækja og einstaklinga á svæðinu til að styðja við verkefnið, engin svör komu úr Fjallabyggð.
Á 630. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var lagt fram erindi Sigríðar M. Jóhannsdóttur fh. Mæðrastyrksnefndar Akureyrar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða Krossins við Eyjafjörð dags. 14.11.2019 þar sem óskað er eftir styrk vegna jólaaðstoðar til heimila á Eyjafjarðarsvæðinu sem úthlutað var 12. desember nk.
Bæjarráð sá sér ekki fært að verða við beiðninni þar sem félagsþjónusta sveitarfélagsins veitir jólaaðstoð til skjólstæðinga sinna.
Mynd: aðsend