Trilludagar voru haldnir á Siglufirði í áttunda sinn laugardaginn 26. júlí og tókust þeir einstaklega vel. Góð stemning var á bryggjunni og um borð í bátunum allan daginn segir á vefsíðu Fjallabyggðar.

Að þessu sinni voru það 11 eldhressir trillukarlar og aðstoðarfólk þeirra sem sáu um siglingarnar þeir Andri Viðar Víglundsson, Ásgeir Frímanns, Ellert Ólafsson, Gestur Hansson, Gunnar Júlíusson, Jóhann Örn Guðbrandsson, Lúðvík Trausti Gunnlaugsson, Óli Brynjar Sverrisson, Ómar Óskarsson, Reynir Karlsson og Þiðrik Unason. 

Um 500 gestir fóru á sjó og tók hver sigling um 40 mínútur. Biðröðin í bátana hélst þétt yfir daginn og voru gestir hátíðarinnar allir sammála um að upplifunin af siglingunni hefði verið biðarinnar virði enda bros á hverju andliti þegar í land var komið. Sjóstangir voru um borð í trillunum og komu allir bátar með fisk á grillið.

Á bryggjunni stóðu vaskir Kiwanismenn og velunnarar ásamt konum sínum vaktina við flökun og grill og afgreiddu þau um 2000 diska af góðgætinu ásamt grilluðu grænmeti. Pylsur og drykkir voru einnig á boðstólum í boði Kjörbúðarinnar.

Tónlistarsnillingarnir og heimamennirnir Stúlli og Tóti futtu alla bestu slagarana á bryggjunni sem gerði stemminguna frábæra. Síldargengið fór rúnt um bæinn og endaði dagurinn kl. 16 með síldarsöltun og bryggjuballi við Síldarminjasafnið. 

Unglingasveitin SmáDjarfur í Fjallabyggð annaðiðst gæslu við hoppukastala og Björgunarsveitin Strákar voru við gæslu á sjó. Bryggjugengið í ár samanstóð af eldhressum aðilum úr Slökkviliði Fjallabyggðar, Lindu Leu Bogadóttur, markaðs- og menningarfulltrúa og Kolbeini Óttari Proppé. Einnig voru til aðstoðar starfsmenn Þjónustumiðstöðvar Fjallabyggðar, hafnarinnar og Fiskmarkaðarins.

Fjallabyggð færir trillueigendum og trillukörlunum, félögum úr Kiwanisklúbbnum Skildi í Fjallabyggð, velunnurum þeirra, Unglingasveitinni SmáDjarfi, Björgunarsveitinni Strákum, Fiskmarkaðnum á Siglufirði, starfsmönnum þjónustumiðstöðvar, Fjallabyggðahafna og öllum þeim fjölmörgu sem að hátíðinni komu bestu þakkir fyrir þeirra þátttöku á Trilludögum 2025.

Myndir/Fjallabyggð