Tæplega 5.000 manns hafa sótt sér íbúaapp Akureyrarbæjar, sem gerir íbúum kleift að fylgjast með mikilvægum upplýsingum á einfaldan og þægilegan hátt.

Í appinu er tilkynningarvirkni, sem þýðir að íbúar geta hakað við ákveðna málaflokka og fengið tilkynningar í símann. Flokkarnir eru:

✅ Almennt efni 
✅ Götulokanir og framkvæmdir
✅ Snjómokstur og hálkuvarnir
✅ Strætó
✅ Sundlaugar
✅ Umhverfismál

Í appinu er einnig hægt að greiða fyrir bílastæðasjóð, stöðvunarlagabrot og biðja um endurupptöku. Engin þjónustugjöld eru tekin þegar appið er notað til að greiða fyrir bílastæði.

Í appinu má að sama skapi finna ábendingagátt, sem gefur fólki kost á að senda sveitarfélaginu ábendingu um það sem betur má fara, og rafrænt gámakort, sem kemur í stað klippikortanna. Gömlu pappakortin eru þó áfram í gildi. Hér eru ítarlegar leiðbeiningar um notkun rafræna gámakortsins í íbúaappinu.

Íbúaapp Akureyrarbæjar er aðgengilegt fyrir bæði Apple og Android stýrikerfi. iPhone notendur slá inn leitarorðið Akureyrarbær í App Store í símanum sínum en Android notendur finna appið í Play Store.

Hægt er að senda ábendingar um virkni appsins í gegnum ábendingagáttina í appinu eða á heimasíðu Akureyrarbæjar.