- Reykskynjarar eru á 96% heimila landsins
- Brunavarnir heimila á leigumarkaði eru lakari en almennt gerist
- 45% íbúða á leigumarkaði eru ekki með eldvarnarteppi
Í upphafi árs framkvæmdi HMS árlega skoðanakönnun um brunavarnir heimilanna. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að reykskynjarar eru á 96 prósent heimila landsins, helmingur þeirra landsmanna sem eru með slökkvitæki á heimilum sínum yfirfara tækin ekki og 45 prósent íbúða á leigumarkaði eru ekki með eldvarnarteppi. Niðurstöður könnunarinnar sýna að ástand brunavarna á heimilum er almennt gott. Einn eða fleiri reykskynjarar eru á 96 prósent heimila, 80 prósent heimila eru með slökkvitæki og 66 prósent með eldvarnarteppi. Niðurstöðurnar má sjá á mynd hér að neðan:

Brunavarnir í leiguhúsnæði eru lakari en almennt gerist
Mikinn mun má sjá á brunavörnum íbúða sem nýttar eru til útleigu og þeirra íbúða sem nýttar eru til eigin búsetu og virðist brunavörnum í leiguhúsnæði vera ábótavant.
Alls eru 7,9 prósent íbúða sem nýttar eru til útleigu án reykskynjara, samanborið við 3,5 prósent íbúða sem nýttar eru til eigin búsetu. Einnig eru 45 prósent íbúða á leigumarkaði sem ekki eru með eldvarnarteppi á móti 30 prósent þeirra íbúða sem nýttar eru til eigin búsetu.
Samkvæmt húsaleigulögum ber leigusala að sjá til þess að leiguhúsnæði fullnægi kröfum um brunavarnir og honum ber að upplýsa leigjanda um brunavarnir húsnæðisins sem er til útleigu. Mikilvægt er að leigjendur kynni sér brunavarnir húsnæðisins sem þeir eru að leigja og gangi úr skugga um að það sé reykskynjari til staðar, auk slökkvitækis og að það séu tvær flóttaleiðir út úr húsnæðinu.
Eru brunavarnir heimilisins yfirfarnar og í lagi?
Nauðsynlegt er að yfirfara brunavarnir heimilisins með reglulegu millibili til að vera fullviss um að þær virki sem skyldi. Niðurstöður könnunarinnar sýna að 71 prósent svarenda yfirfara reykskynjara á sínu heimili einu sinni eða oftar á ári og einungis 50 prósent þeirra landsmanna sem eru með slökkvitæki á sínum heimilum yfirfara þau samkvæmt leiðbeiningum. Mikilvægt er að brunavarnir heimilisins séu í lagi ef eldur kemur upp og að allir þekki flóttaleiðir út af heimilum.
HMS sinnir öflugu fræðslu og forvarnarstarfi á sviði brunavarna og á vefnum Vertu eldklár má nálgast forvarnar- og fræðsluefni varðandi brunavarnir heimilisins.
Mynd/HMS