Alþingi hefur samþykkt frumvarp Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús. Hunda- og kattahald er nú leyft í fjölbýli og samþykki annarra eigenda ekki lengur skilyrði fyrir dýrahaldinu, jafnvel þótt íbúðir deili sameiginlegum stigagangi.

Í framsöguræðu sinni á Alþingi í haust undirstrikaði Inga Sæland að breytingunum væri ætlað að liðka fyrir hunda- og kattahaldi fólks óháð efnahag og búsetu – enda hefðu fyrri lög orðið til þess að íbúar í fjöleignarhúsum hefðu haft minni möguleika á slíku dýrahaldi en fólk í sérbýli. Um væri að ræða sanngjarnt og málefnalegt skref í átt að nútímalegri löggjöf um gæludýrahald.

„Við tökum mið af því hvernig fólk býr og lifir – og við treystum fólki til að axla ábyrgð,“ sagði hún. „Á undanförnum árum hafa áhrif gæludýra á líðan fólks fengið aukna athygli. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að nærvera gæludýra eykur vellíðan, dregur úr einmanaleika og ýtir undir hreyfingu og útiveru. Margir líta á hund eða kött sem fjölskyldumeðlim og mikilvægan félaga þeirra sem búa einir – ekki síst eldra fólk og ungt fólk í viðkvæmri stöðu.“

Hvað fela lögin í sér?

  • Fólk sem býr í fjöleignarhúsum og deilir stigagangi með öðrum þarf ekki lengur samþykki annarra eigenda fyrir því að eiga hund eða kött.
  • Húsfélög munu þó geta sett reglur um hunda- og kattahaldið, svo lengi sem þær eru málefnalegar, eðlilegar og byggðar á jafnræði. Eigendur geta þá sammælst um nánara fyrirkomulag dýrahaldsins, svo sem um umgengni og afnot á einstökum hlutum sameignar. Slíkar reglur geta þó eðli málsins samkvæmt ekki gengið svo langt að þær girði fyrir hunda- eða kattahald í húsinu enda væri það andstætt markmiði laganna.
  • Húsfélög geta áfram lagt bann við hundum og köttum ef dýrin valda verulegum ama, ónæði eða truflunum og eigendur bregðast ekki við áminningum húsfélagsins og ráða bót þar á. Þannig gæti húsfélag til dæmis bannað einstök tilvik dýrahalds ef ofnæmi væri á svo háu stigi að sambýli við dýrið yrði óbærilegt og ekki væri hægt að finna lausnir til að ráða bót þar á.
  • Samþykki 2/3 hluta eigenda þarf þó fyrir slíku banni og það sama gildir þegar eigandi dýrs brýtur verulega eða ítrekað gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum eða reglum húsfélagsins, þrátt fyrir áminningar húsfélags. Húsfélagið getur þá bannað viðkomandi dýrahald með samþykki 2/3 hluta eigenda og gert eiganda dýrsins að fjarlægja það úr húsinu. Dæmi um slíkt brot er lausaganga hunda í sameign eða á sameiginlegri lóð, sem telst alvarlegt brot í þessum skilningi samkvæmt lögunum.