Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að Covid-19 veiran hefur gjörbreytt öllu lífi almennings og raunar allri þeirri heimsmynd sem við þekkjum.

Fréttaritar Trölla.is, þau hjónin Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason dvelja hluta úr ári á Gran Canaria. Þau búa í helli sem þau eiga í Angostura gljúfri ásamt 25.000 fm landi í fjöllunum fyrir ofan bæinn Vecindario.

Í gær á öðrum degi útgöngubannsins hér á Gran Canaria gekk vel hjá okkur hjónum.

Veðrið er frekar kalt miðað við undanfarna daga og stóðum við ekki í neinum stórræðum.

Við erum að gera tilraun með að taka upp vídeó blogg sem við setjum inn á YouTube. Þar segjum við frá deginum í máli og myndum.

Ég hef heyrt frá nokkrum Íslendingum og fer ástandið mismunandi í þá. Sumum finnst eins og þeir séu í fangelsi og bíða eftir því að komast heim til Íslands á meðan aðrir taka þessu með æðruleysi, eins og gengur og gerist.

Við hjónin erum ákveðin í að nota tímann til að gera eitthvað nýtt og er þessi vídeóvinnsla ein af þeim hugmyndum sem við ætlum að setja í framkvæmd.