Á bænum Böðvarshólum í Vesturhópi í Húnaþingi vestra hefur nú verið opnað hundahótel. Það eru ábúendurnir á bænum þau Ingveldur Ása og Jón Ben sem settu upp og reka hótelið.

Aðspurð af hverju þau hafi ákveðið að opna hundahótel segir Ingveldur að hún hefði verið heima hjá sér í Böðvarshólum í fæðingarorlofi og hugsaði með sér hvað hún gæti gert til að skapa sér meiri vinnu heima hjá sér. Hún kíkti inn á Facebook, eins og fólk gerir þegar það hefur lítið að gera. Þar sá hún auglýst til sölu hundahótel og fékk þá þessa bráðsniðugu hugmynd að opna hundahótel.

Hólakot hundahótel


“Þörfin er greinilega mikil því að hundaeigendur geta lent í vandræðum við að koma hundunum sínum fyrir þegar þeir fara í frí” sagði Ingveldur í viðtali við þáttarstjórnendur í þættinum Gestaherbergið þriðjudaginn 12. apríl á FM Trölla.
“Nánast fullt er á hótelinu um páskana og út allan apríl svo þörfin sýnir sig.”

Hundarnir og heimasætan í Böðvarshólum

Átta pláss eru á hótelinu fyrir stóra sem smáa hunda.

Í Böðvarshólum var reist minkahús fyrir allmörgum árum sem hefur verið nýtt sem hesthús og fjárhús eftir að minkabúskapur lagðist af.
En nú hefur gamla minkahúsið fengið enn eitt hlutverkið og það er nú nýtt sem nýja hundahótelið.

Hamingjusamur hvolpur í sveitinni

Flestir hundar sem hafa fengið bókað pláss í Hólakoti eiga heimili í Reykjavík en þó einhverjir í Húnaþingi vestra. En hundar af öllu landinu eru velkomnir segir Ingveldur.

Hægt er að bóka pláss fyrir fleiri en einn hund af sama heimili.

Þjálfun í dvöl” er einnig í boði á hótelinu og er Ingveldur með hundaþjálfararéttindi í gegnum IACP, alþjóðleg samtök hundaþjálfara.

Á vefsíðunni holakot.is er hægt að sjá allar upplýsingar um aðbúnað og verð á hótelinu.

Myndir: holakot.is