Á vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga segir að fyrsti breytti dagurinn eftir að skólahúnæðum framhaldsskóla var lokað gekk ákaflega vel.

Segir þar að nemendur mættu nánast allir í tíma samkvæmt stundaskrá og unnu virkilega vel.

“Öll starfsemi gekk hnökralaust í gær þannig að við horfum bjartsýn fram á veginn. Við hvetjum alla aðstandendur og aðra í umhverfi nemenda til að ræða við þau um námið, forvitnast um hvað þau eru að læra og sýna verkum þeirra áhuga. Það styður þau allra best.

Viljum minna á að við, starfsmenn skólans leggjum okkur öll fram, við gerum okkur grein fyrir að aðstæður ykkar nemendur góðir eru allskonar. Sumir í sóttkví, aðrir strand í útlöndum, sumir í vinnu og börnin heima, sumir komast ekki í skólann eins og venjulega. Þetta allt eru aðstæður sem við ráðum lítið við.

En það er hægt að ráða hvað gert er við námið. Það er ágætt að dreifa huganum og njóta lesturs, leysa verkefni eða annað sem námið felur í sér.

Njótið námsins og leyfið okkur að hjálpa ykkur þannig að allar einingar sem þið skráðuð ykkur í komist í ykkar einingaeign við lok annarinnar”.


Mynd: Lára Stefánsdóttir