Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra opnaði nýtt sendiráð Íslands á Spáni með formlegum hætti í Madríd í gær. Undirbúningur að stofnun þess hefur staðið um nokkurt skeið, eða frá því Alþingi ákvað við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári að opnað yrði sendiráð á Spáni árið 2025.

Af þessu tilefni var haldin sérstök ráðstefna í spænska utanríkisráðuneytinu í morgun með þátttöku José Manuel Albares, utanríkisráðherra Spánar. Síðdegis fóru svo fram pallborðsumræður um aukin viðskiptatengsl Íslands og Spánar en í tilefni opnunar sendiráðsins var sérstök viðskiptasendinefnd á vegum Íslandsstofu í föruneyti ráðherra á Spáni.

„Þúsundir Íslendinga dvelja langdvölum á Spáni, með tilheyrandi borgaraþjónustumálum af ýmsum toga, og Spánn er eitt helsta viðskiptaríki Íslands. Í ljósi þess var löngu tímabært að opna hér sendiráð, bæði til að þjónusta ríkisborgara okkar betur og til að rækta tengslin enn frekar við eitt af okkar nánustu samstarfsríkjum,“ segir Þorgerður Katrín. „Þess vegna er sérstakt ánægjuefni að við séum á sjálfum fullveldisdeginum að framkvæma ákvörðun sem allir flokkar á Alþingi sammæltust um á síðasta kjörtímabili. Ísland, sem fullvalda þjóð, á nefnilega að leggja áherslu á að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og rækta tvíhliða tengsl á jafningjagrundvelli. Þá tel ég að það séu fjölmörg tækifæri fyrir hendi til að efla sambandið við Spán enn frekar. Ekki síst á sviðum menningar og viðskipta og það er sérlega ánægjulegt að sjá hversu mörg íslensk fyrirtæki tóku þátt í sendinefndinni sem Íslandsstofa setti saman og er til marks um áhuga þeirra á tækifærunum sem leynast á Spáni.“

Þorgerður Katrín hóf daginn á tvíhliða fundi með spænska utanríkisráðherranum, en ráðherrarnir ræddu tvíhliða samband Íslands og Spánar, samstarf ríkjanna á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og sambandið yfir Atlantsála sem og ólöglegt innrásarstríð Rússa í Úkraínu. Málefni Palestínu og norðurslóðamál komu einnig til umræðu, auk Evrópumála.

Í kjölfar fundar ráðherranna var efnt til pallborðsumræðna í spænska utanríkisráðuneytinu um utanríkispólitísk málefni og tóku bæði Þorgerður og Albares þar þátt. Um hádegisbilið fór svo fram sérstök athöfn í sendiráði Íslands í spænsku höfuðborginni til að fagna opnun þess. Síðdegis voru haldnar sérstakar pallborðsumræður um aukin viðskiptatengsl Íslands og Spánar. Meðal íslenskra fyrirtækja sem tóku þátt í viðskiptasendinefnd Íslandsstofu má nefna Aparta Iceland, Boreal Travel, Carbon Recycling International, First Water, Icelandic, Iceland Seafood, Icelandic Trademark Holding, Kerecis, JBT Marel, Mint Solution, Reykjavík Geothermal, Stjörnu-Oddi hf., Atlantic Quality Fish og Business BAZAAR.

Utanríkisráðherra mun því næst eiga tvíhliða fund með aðstoðarefnahags- og viðskiptaráðherra Spánar, Maria Amparo López Senovilla, en viðskiptasendinefndin íslenska er í sérstakri dagskrá sem Íslandsstofa hefur skipulagt í samstarfi við sendiherra Íslands á Spáni, Kristján Andra Stefánsson.

Spánn var í sjöunda sæti á síðasta ári yfir viðskiptalönd Íslands en einkum er fluttur þangað fiskur og í auknum mæli ál og aðrar sjávarafurðir. Tugir þúsunda Íslendinga sækja ennfremur Spán heim ár hvert og dvelja þar um lengri og skemmri tíma. Munu Íslendingar, sem dvelja langdvölum á Spáni, framvegis geta sótt um ný vegabréf í Madríd og sótt aðra þá borgaraþjónustu sem sendiráð jafnan veitir þangað. Þá má nefna að í Alþingiskosningunum 2024 voru um 30% allra greiddra atkvæði í utankjörfundaratkvæðagreiðslu erlendis frá Spáni.

Mynd/aðsend