Skólastjóraskipti urðu við Grunnskóla Fjallabyggðar í gær þegar Erla Gunnlaugsdóttir tók við lyklavöldum af Jónínu Magnúsdóttur fráfarandi skólastjóra. Formlega tekur Erla við starfinu 1. október.

Erla tekur við lyklavöldunum.

 

Fjölmenni var viðstatt í íþróttasal skólans þegar skólastjóraskiptin fóru fram, kennarar og nemendur við yngra stig skólans ásamt Ríkey Sigurbjörnsdóttur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og Lindu Leu Bogadóttur markaðs- og menningarfulltrúa Fjallabyggðar.

Jónína hefur starfað við skólann síðan 1991, var fyrst kennari, síðan aðstoðarskólastjóri í fjögur ár og skólastjóri síðastliðin 16 ár. Erla hóf störf við grunnskólann árið 1990 og hefur starfað þar sem kennari og undanfarin ár sem sérkennari og verið yfir þeim málaflokki. Jónínu voru þökkuð góð störf á liðnum árum og kvödd með blómum og fallegri gjöf.

 

Ríkey Sigurbjörnsdóttir afhendir Jónínu Magnúsdóttir góðar gjafir.

Framundan hjá Jónínu er að taka við aðstoðarskólastjórastöðu við grunnskólann í Þorlákshöfn, hún er þó ekki alfarin frá Siglufirði það sem hún hyggst búa hér áfram.

Erla Gunnlaugsdóttir er öllum hnútum kunnug við skólastarfið og kvaðst hún taka við starfinu með tilhlökkun, “mesta breytingin verður þó að fara af gólfinu yfir í stjórnunarstöðu og pappírsvinnu”.

Í grunnskóla Fjallabyggðar eru alls 203 nemendur, 105 í neðra stigi á Siglufirði og 98 nemendur á efra stigi skólans í Ólafsfirði.

 

Jónína kveður börnin, þau kvöddu hana ansi mörg með tárum.

Við athöfnina fékk fimmti bekkur þennan fína gullskó til afhendingar fyrir að vera duglegust við að koma gangandi í skólann.

 

Hólfríður Ósk Norðfjörð skólaritari með gullskóinn.

 

Fimmti bekkur með gullskóinn.

 

Frétt og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir