Á haustönn í Menntaskólanum á Tröllaskaga hafa þrír nemendur lokið lokaverkefnisáfanga á myndlistarsviði en áfanginn byggir á þeirri þekkingu sem þeir hafa aflað sér í teikningu og vinnu með olíuliti á fyrri misserum. Að þessu sinni hefur skapast fjölbreytt og persónuleg sýn á listina þar sem áherslan er á frumleika, ímyndunarafl og listræna túlkun.

Í frétt á mtr.is kemur fram að mikil áhersla sé lögð á persónulega nálgun og að verkefnin standist kröfur um áræðni og listræna framsetningu. Nemendur velja sér viðfangsefni út frá eigin áhugasviði og vinna að rannsóknar og sköpunarferli undir handleiðslu kennara.

Kristín Magnea Sigurjónsdóttir stundaði námið frá Gran Canaria þar sem hún býr og ákvað að nýta tækifærið til að skapa verk fyrir nýtt heimili sitt á eyjunni. Hún nefnir lokaverkefnið Veggir án minninga og málaði myndir sem fylltu tóma veggi í húsinu sem hún og eiginmaður hennar, Gunnars Smári, keyptu nýverið. Í stað þess að senda verkin til sýningar á haustsýningu skólans tók hún upp myndband þar sem hún sýnir bæði ferlið og eigin myndlistarsýningu sem hún hélt heima hjá sér fyrir lítinn hóp vina. Þar fjallar hún einnig um kosti fjarnáms við MTR.

Myndbandið má sjá hér að neðan:

Áróra Hlín Helgadóttir, fjarnemi og systir Gunnars Smára, eiganda trolli.is og eiginmanns Kristínar Magneu Sigurjónsdóttur, lét fegurð íslenskrar náttúru verða viðfangsefni sínu í lokaverkefninu. Hún málaði sex vegleg olíumálverk í rómantískum landslagsstíl af uppáhalds stöðum sínum víðs vegar um landið. Verkin eru 80×100 cm og verða til sýnis á haustsýningu skólans sem opnar á laugardag.

Hlynur Snær, Áróra Hlín og Kristín Magnea með eftirminnileg lokaverkefni í MTR - Myndir og vídeó

Þriðja lokaverkefnið er í höndum staðnemans Hlyns Snæs Harðarsonar sem hefur unnið að umfangsmiklu verki í vetur. Fylgst hefur verið með ferð verksins frá fyrstu skrefum þegar striginn var strekktur á rammann og Hlynur safnaði hugmyndum frá samnemendum og kennurum. Túlkun þessara hugmynda hefur síðan tekið á sig mynd á striganum, fyrst í blýantsteikningu og síðar með penslum og olíulitum. Myndir sem fylgja fréttinni sýna þróun verksins skref fyrir skref. Verður verkið meðal áherslupunkta á haustsýningunni.

Myndir: mtr.is