Hljómsveitin Ástarpungarnir hefur verið útnefnd Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2026. Ákvörðunin var tekin á fundi Markaðs- og menningarnefndar Fjallabyggðar þriðjudaginn 16. desember og var hún staðfest á fundi bæjarstjórnar daginn eftir.

Í tilkynningu frá Fjallabyggð kemur fram að Ástarpungarnir hafi á undanförnum árum haldið fjölbreytta tónleika fyrir bæði börn og fullorðna og vakið verðskuldaða athygli fyrir framlag sitt til tónlistarlífsins. Hljómsveitin hefur verið ötul við að gleðja íbúa og gesti með tónleikum og ýmsum tónlistarviðburðum og hafa jólatónleikar þeirra orðið ómissandi hluti af hátíðarundirbúningi í Fjallabyggð.

Sérstaklega er minnst á tónleika Ástarpunganna um verslunarmannahelgina á Síldarævintýrinu 2025, þar sem tónleikar þeirra stóðu upp úr sem einn af eftirminnilegustu viðburðum sumarsins og drógu saman fólk á öllum aldri.

Með störfum sínum hafa Ástarpungarnir að mati nefndarinnar eflt menningarlíf Fjallabyggðar, styrkt samfélagslega samkennd og verið skýrir fulltrúar þess krafts og hæfileika sem býr í heimabyggðinni. Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar þakkar jafnframt fyrir þær tilnefningar sem bárust í ár og óskar hljómsveitinni innilega til hamingju með heiðursnafnbótina.

Ástarpungarnir verða formlega útnefndir við hátíðlega athöfn í upphafi árs 2026. Við sama tilefni verða menningarstyrkir Fjallabyggðar fyrir árið 2026 afhentir og verða frekari upplýsingar um athöfnina kynntar þegar nær dregur.

Að lokum þakkar Fjallabyggð Kristínu R. Trampe, fráfarandi bæjarlistamanni, fyrir hennar mikilvæga framlag til lista og menningar á árinu sem er að líða.

Mynd: Facebook / Ástarpungarnir