Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til breytinga á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun um vindorku og verndarflokk.
Frumvarpinu er ætlað að tryggja vernd náttúruverðmæta og landslagsheilda, lögbinda forræði nærsamfélags þegar kemur að vindorkunýtingu en jafnframt að liðka fyrir uppbyggingu sem fellur að byggðasjónarmiðum og styður við raforkuöryggi og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
Lagt er til að vindorka lúti að meginstefnu sömu lögmálum og aðrir orkukostir í rammaáætlun en þó með mikilvægum undantekningum sem leiða af sérstöku eðli vindorkunnar.
Þannig verði verðmæt og viðkvæm svæði á Íslandi undanskilin frá vindorkunýtingu, svo sem friðlýst svæði, svæði sem njóta sérstakrar verndar og miðhálendi Íslands. Þá verði sveitarfélögum veitt eiginlegt neitunarvald gagnvart vindorkuáformum, þ.e. með undanþágu frá þeirri almennu reglu að flokkun svæða sé bindandi gagnvart skipulagi sveitarfélaga.
Loks er mælt fyrir um þætti sem verkefnisstjórn skuli sérstaklega líta til við mat á vindorkukostum, meðal annars um áhrif á fuglalíf og verndargildi nálægra friðlýstra svæða, um raforkuöryggi og atvinnuuppbyggingu í viðkvæmum byggðum og samlegð vindorkukosta við uppbyggingu flutningskerfis raforku.
Í sama frumvarpi er mælt fyrir um almennar breytingar á réttaráhrifum flokkunar í verndarflokk rammaáætlunar. Þær breytingar miða að því að náttúruverðmæti sem fjallað hefur verið um á vettvangi rammaáætlunar séu vernduð samkvæmt viðeigandi friðlýsingarflokkum í náttúruverndarlögum frekar en að svæði séu einvörðungu friðlýst gegn orkuvinnslu.
Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna frumvarpsins í Samráðsgátt stjórnvalda er til 19. janúar n.k.
Mynd: Johannes Jansson/norden.org

