Á Siglufirði hefur á síðustu mánuðum tekið að myndast líflegur hópur áhugafólks um pílukast. Starfið fer fram á Segull 67 og er jafnan talað um píludeildina á Segli, enda hefur klúbburinn ekki enn fengið formlegt nafn. Að sögn Ögmundar Atla Karvelssonar, sem gegnir hlutverki formanns og heldur utan um skipulagið, er starfið opið öllum sem hafa áhuga, hvort sem um er að ræða vana spilara eða nýliða.

Pílukvöldin eru að jafnaði haldin á fimmtudögum og byggja á því fyrirkomulagi að allir spili við alla. Ögmundur heldur utan um tölfræði og sigurhlutföll og hafa ýmsar léttar áskoranir verið hluti af stemningunni. Þar má nefna verðlaun fyrir afrek eins og að kasta 180, klára leik með yfir hundrað stiga útkasti, vinna fimm leiki í röð eða fara taplaus í gegnum heilt kvöld með að minnsta kosti tíu leikjum. Nú á dögunum var til dæmis úthlutað kassa af bjór fyrir hæsta sigurhlutfallið frá upphafi. Greitt er eitt þúsund krónur á mann fyrir hvert kvöld og rennur það í uppbyggingu og viðhald aðstöðunnar.

Nýstofnaður píluklúbbur á Siglufirði, fyrsta jólamótið heppnaðist vel - Myndir

Ögmundur Atli Karvelsson, til hægri á myndinni, heldur utan um skipulag og utanumhald píludeildarinnar á Segli 67.

Að sögn Ögmundar og Marteins Brynjólfssonar Haraldssonar, eiganda og bruggmeistara Seguls 67, sem margir þekkja sem Matta Haralds, var hugmyndin í upphafi mun einfaldari. Ætlunin var að hittast, fá sér að drekka og kasta pílum á tvö spjöld með sjálfvirkum teljurum. Áhuginn reyndist hins vegar mun meiri en búist var við og hefur starfsemin vaxið hratt. Í dag eru fjögur spjöld í notkun, þar af eitt með sjálfvirkum teljara, og nýlega var keypt fyrsta spjaldið sem klúbburinn sjálfur á. Stefnan er sett á að koma sjálfvirkum teljurum á að minnsta kosti sex spjöld á næstunni.

Píludeildin var stofnuð í október og tók það nokkurn tíma að koma henni af stað. Ögmundur segir fyrstu vikurnar hafa verið rólegar, þrátt fyrir auglýst opið starf, þar til tveir mættu eitt kvöldið, kveiktu neista og drógu fleiri með sér. Í dag eru yfir tuttugu skráðir í tölfræðihaldi og lífið í deildinni orðið fastur liður í vikunni. Á nýju ári er stefnt að meira utanumhaldi með riðlaskiptingu á hverju kvöldi og tveimur útsláttakeppnum þar sem efstu og neðri hlutar mætast hvor í sínum flokki. Formleg mót eru helst fyrirhuguð í kringum stórhátíðir og vetrarfrí.

Annar í jólum, þann 26. desember, var svo haldið jólapílumót á Segli sem hófst klukkan 19.30 eftir að húsið opnaði klukkan 19. Mótsgjaldið var 2.500 krónur og þeir sem greiddu fyrir klukkan 17 fóru í pott þar sem dregið var um 20 þúsund króna gjafabréf hjá Ástþór Tattoo. Keppt var í 501, double út, best of three, með hámarki 51 pílu eða tíu mínútur í hverju einvígi, að öðrum kosti var leikið um “bull” til að knýja fram úrslit. Keppendum var skipt í riðla eftir styrkleika og fóru mismargir áfram í útslátt eftir fjölda þátttakenda.

Í riðli A kepptu Ægir Bergs, Viktoría Unnur Jóhönnudóttir, María Elín Sigurbjörnsdóttir sem einnig er þekkt sem Ella Maja, Hallfríður Jóhanna Hallsdóttir sem margir kalla Hadda Halls, Hrafnhildur Ása Einarsdóttir og Jóhanna Unnur Haraldsdóttir. Í riðli B voru Ólafur Björnsson sem gengur undir nafninu Óli Biddýar, Páll Þorvaldsson, Björn Gaui Haraldsson sem kallaður er Bjössi Bó, Baldvin Ingimar Baldvinsson, Hjörleifur Þór Steingrímsson og Heimir Smári Traustason. Í riðli C kepptu Jóhann Már Sigurbjörnsson, Ástþór Árnason, Sebastian Vignisson, Kristófer Þór Jóhannsson, Finnur Mar Ragnarsson og Jakob Auðunn Sindrason. Í riðli D voru Óli Agnarsson, Björn Guðnason, Sævar Örn Kárason, Daníel F Ragnarsson, Gunnar Örn Óskarsson og Jói Ottesen.

Nýstofnaður píluklúbbur á Siglufirði, fyrsta jólamótið heppnaðist vel - Myndir

Jóhann Már Sigurbjörnsson og Ástþór Árnason með verðlaun sín að lokinni úrslitakeppni á jólapílumótinu á Segli 67.

Í fyrstu útsláttakeppninni mættust þeir sem enduðu í tveimur efstu sætum riðlanna. Þar á meðal voru Ægir Bergs, Viktoría Unnur Jóhönnudóttir, Ástþór Árnason, Ólafur Björnsson, Óli Agnarsson, Páll Þorvaldsson, Jóhann Már Sigurbjörnsson og Björn Guðnason. Sigurvegari varð Jóhann Már Sigurbjörnsson sem lagði Ástþór Árnason í úrslitaleiknum. Í verðlaun hlaut Jóhann kassa af bjór og eina nótt á Sigló Hóteli og þeir báðir fengu pílutösku frá pingpong.is.

Í annarri útsláttakeppninni kepptu Hallfríður Jóhanna Hallsdóttir, María Elín Sigurbjörnsdóttir, Björn Gaui Haraldsson, Baldvin Ingimar Baldvinsson, Sebastian Vignisson, Sævar Örn Kárason, Daníel F Ragnarsson og Kristófer Þór Jóhannsson. Þar hafði Björn Gaui Haraldsson betur gegn Sebastian Vignisson í úrslitum og hlaut fyrir það kassa af bjór. Þeir fengu báðir pílutösku að launum.

Smellið hér fyrir nánari upplýsingar á Facebook-síðu klúbbsins.

Ljósmyndir með fréttinni tók María Elín Sigurbjörnsdóttir.