Skráning kílómetrastöðu ökutækja vegna kílómetragjalds hefur gengið mjög vel. Aðeins á eftir að skrá 15% af þeim rúmlega 300 þúsund ökutækjum sem ný lög um kílómetragjald ná yfir. Kílómetragjaldið, sem varð að lögum um áramót, tekur mið af notkun vega . Þannig verður gjaldtakan sanngjarnari og endurspeglar betur notkun ökutækja á vegakerfinu, um leið og hún skapar stöðugri og fyrirsjáanlegri tekjustofn af umferðinni til framtíðar.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Við þökkum fólkinu í landinu fyrir að hafa tekið vel á móti þessari mikilvægu kerfisbreytingu sem mun gera okkur sem samfélag betur í stakk búin til að fjármagna örugga og greiða vegi um allt land.“ 

„Þetta er stór kerfisbreyting og því eðlilegt að það vakni margar spurningar. Við höfum því lagt okkur fram við að koma upplýsingum á framfæri og erum reiðubúin til að svara spurningum, veita aðstoð og bregðast við athugasemdum,“

Skráning kílómetrastöðu skiptir máli

Kílómetragjald verður greitt mánaðarlega, með svipuðum hætti og rafmagnsreikningurinn, og er fyrsti gjalddagi 1. febrúar næstkomandi.

Skatturinn reiknar meðalakstur út frá síðustu tveimur skráningum á kílómetrastöðu á þeim tíma sem eigandi eða umráðamaður (einstaklingur eða fyrirtæki) hefur átt eða haft ökutæki til umráða og byggist mánaðarleg greiðsla á þeim mælingum. Ef tvær skráningar liggja ekki fyrir áætlar Skatturinn meðalakstur og leggur til grundvallar á bráðabirgðagreiðslu gjaldsins. Hægt er að uppfæra skráningu kílómetrastöðu á 30 daga fresti og verður kílómetragjald leiðrétt í samræmi við nýjustu skráningu.

Mælst er til þess að kílómetrastaða sé sérstaklega skráð fyrir 20. janúar ef:

  • Ökutæki hefur verið keypt nýlega og einungis er til ein akstursskráning á eignar-/umráðatíma.
  • Ökutækið er nýlegt og því ekki þurft að fara í aðalskoðun árlega.
  • Notkun ökutækisins hefur breyst, minnkað eða aukist, og fyrri skráningar endurspegla ekki núverandi notkun.

Greitt fyrir notkun og greitt fyrir losun

Með nýjum lögum um kílómetragjald féllu olíu- og bensíngjöld niður og í staðinn var tekið upp gjald sem miðast við hvern ekinn kílómetra. Samhliða þessum breytingum hefur kolefnisgjald verið uppfært þannig að það endurspegli betur raunverulega losun CO2 vegna notkunar jarðefnaeldsneytis. Þar með er gerður skýr aðskilnaður á milli annars vegar gjaldtöku fyrir notkun vega og hins vegar gjaldtöku fyrir losun CO2. Uppfært kolefnisgjald styður því áfram við orkuskipti og tryggir að minnstur kostnaður verður við rekstur rafmagnsbíla og að eyðslumeiri bílar greiða meira.

Nánari upplýsingar og aðstoð

  • Skráning kílómetrastöðu fer fram á Mínum síðum á Ísland.is, á vefsíðu eða í smáforriti (appi). Sé þörf á aðstoð vegna skráningarinnar er hún veitt hjá þjónustuveri Ísland.is í síma 426 5500 og á netfanginu island@island.is.
  • Skatturinn sér um framkvæmdina. Ef spurningar vakna um atriði sem varða hana eða greiðsluseðla er hægt að hringja í Skattinn í síma 442 1000 eða senda póst á km@skatturinn.is.
  • Á vefsíðunni vegirokkarallra.is er að finna upplýsingar um nýja kerfið, það er hvernig það virkar og hvers vegna er verið að taka það upp.