Álagningu fasteignagjalda í Húnaþingi vestra árið 2026 er nú lokið. Fasteignaeigendur eru hvattir til að skoða álagningarseðla sína sem birtir eru í pósthólfi þeirra inni á vefsíðunni island.is. Gott getur verið að skoða samanburð frá síðustu álagningu, en álagningarseðlar síðasta árs voru birtir inni á island.is þann 24. janúar 2025.

Álagningarseðlarnir verða ekki sendir í bréfpósti, en hægt er að óska eftir að fá þá senda í tölvupósti. Slíkum óskum skal beina á netfangið skrifstofa@hunathing.is.

Gjaldstofn A-flokks fasteignagjalda (m.a. íbúðarhúsnæði og úthús, sjá 3. mgr., 3. gr. l.nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga) er 0,45% af fasteignamati og lækkar frá árinu 2025 þegar álagningin var 0,475%. Jafnframt lækkar bæði fráveitu- og vatnsgjald frá fyrra ári. Sorphirðugjald íbúðarhúsnæðis með fasta sorphirðu eru áfram kr. 100.000 og hefur haldist óbreytt í þrjú ár.

Afsláttur af fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota og lögheimili eiga í sveitarfélaginu var reiknaður í upphafsálagningunni og ekki þarf að sækja um hann sérstaklega. Skatttekjur ársins 2024 liggja þar til grundvallar, en hámarksafsláttur er kr. 115.000.

Gjalddagar fasteignagjaldanna eru 8, sá fyrsti 1. febrúar og síðasti 1. september nk. Undantekning frá því er að séu gjöldin lægri en 20.000 er gjalddaginn 1. maí. Gjöld sem eru á bilinu 20.001 – 38.000 skiptast niður á gjalddagana 1. apríl og 1. júlí.

Hægt er að óska eftir að greiða fasteignagjöldin með beingreiðslum af bankareikningi greiðenda. Þessi valmöguleiki er virkjaður með því að hafa samband við þjónustubanka viðkomandi fasteignaeiganda. Húnaþing vestra býður einnig upp á að greiða fasteignagjöldin með kreditkortum, en greiðendur sem kjósa að nýta sér þann valmöguleika í fyrsta sinn geta sent ósk þess efnis með tölvupósti á skrifstofa@hunathing.is.

Greiðsluseðlar eru ekki sendir með pósti, en hægt er að óska eftir því að fá þá senda með tölvupósti. Beiðnir þess efnis skal senda á netfangið skrifstofa@hunathing.is.

Húnaþing vestra getur sent reikning vegna fasteignagjaldanna með rafrænum hætti. Óskir þess efnis skal senda á netfangið skrifstofa@hunathing.is.

Óskir um breytingar og leiðréttingar á álagningu eða innheimtu skal senda á netfangið skrifstofa@hunathing.is sem og almennar fyrirspurnir.

Gjaldskrá fasteignagjaldanna 2026 er að finna hér.