Fréttaritar Trölla.is, þau hjónin Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason dvelja hluta úr ári á Gran Canaria. Þau búa í helli sem þau eiga í Angostura gljúfri ásamt 25.000 fm. landi í fjöllunum fyrir ofan bæinn Vecindario.

Nú eru fimm vikur síðan stjórnvöld settu á útgöngubann hér á Gran Canaria. Það var í fréttum í gær að útgöngubanninu hefur verið framlengt til 10. maí.

Hér er tekið mjög hart á brotum gegn útgöngubanni og er fólk hiklaust sektað er það fer ekki eftir þeim.

Við hellishjónin finnum bæði fyrir því að það er farinn að þyngjast róðurinn hjá okkur við þessa einangrun hér í gljúfrinu. Það eru komnar fimm vikur síðan ég hef séð aðra mannveru en Gunnar, en hann hefur þrívegis farið eftir vistum á tímabilinu.

Í YouTube myndbandi dagsins skreppum niður gljúfrið á fallegt land sem við eigum þar og sýnum umhverfið, klettabeltið, hellana og ræðum þann möguleika að byggja á þessum landskika.

Við látum okkur dreyma um að þar geti verið góð aðstaða fyrir afkomendur okkar í framtíðinni.

Annars gengur lífið þokkalega, tíminn stundum ansi lengi að líða, en það er ekki um annað að ræða en að láta sig hafa það á þessum undarlegu Covid-19 tímum.

Sjá fleiri myndbönd: Hér