Formáli:


Þessi minningasaga kom upp í huga mér eftir óteljandi samtöl við Skandinavíska vini um aðdáun þeirra á íslenskum glæpasögum og sjónvarpsþáttum.
Miðað við samanlagðan fjöldann af morðum í þessum sögum og þáttum þá getur fólk sem er ókunnugt um íslenskar aðstæður kannski haldið við séum frekar ofbeldishneigð þjóð og tengja þeir þá ímynd oft við okkar blóðugu Víkingasögu.

Í hinni æsispennandi þáttaröð Ófærð 2 eru næstum framin fjöldamorð.
En alvöru morð eru guði sé lof mjög sjaldgæfir atburðir á Íslandi.

En fólk á Íslandi á það til að hverfa af yfirborði jarðar á dularfullan máta, verða úti og fl….. og sumir finnast löngu seinna og aðrir…. aldrei. 

Líklega snýst þessi aðdáun erlendra vina minna meira um þá staðreynd að Íslendingar eru og hafa alltaf verið duglegir við að segja góðar sögur og svo er það líka okkar sérstaka fámenna samfélag, merkileg náttúra og veðurharðindi sem vekur bæði forvitni og aðdáun útlendinga.

Þessi saga er um dularfullt mannshvarf sem gerðist í mínum fagra firði þegar ég var aðeins 9 ára gamall og þess vegna eru sumar minningar og hugsanir um þetta frekar barnalegar og byggja á samtölum sem mín ungu óþroskuðu eyru heyrðu fullorðna tala um í hálfum hljóðum.
Við börnin töluðum líka um þetta okkar á milli á eigin máta….
….. furðulegar myndir komu upp í hugann og það var virkilega mikið spáð og spekúlerað í um hvað hefði eiginlega gerst.

Þess vegna má engin túlka þessa sögu mína sem sannleikann um þennan merkilega atburð sem gerðist á Siglufirði í september 1971.
Sem viðbætur við mína barnaminningu bætast minningar annarra gegnum samtöl sem og ákveðnar staðreyndir sem koma frá lestri gamalla blaðagreina. 

En þetta byrjaði allt svona…..

Í byrjun september 1971 birtist ungur 22 ára gamall franskur ferðamaður í bænum, það var frekar óvenjulegt að ferðamenn væru að þvælast hér norður á enda Tröllaskaga á þessum árstíma. Sagan segir að hann hafi fengið inni í farfuglaheimilinu sem samkvæmt blaðagreinum er þá í suðurenda fjarðarins, á Hóli en þar var gamalt mjólkurbú á síldarárunum en þetta svæði með tilheyrandi byggingum var seinna mest notað til allskyns íþróttaiðkunar.
Persónulega man ég meira eftir að farfuglaheimili var um tíma rekið á efstu hæðinni í “Sunnu HF grænum” síldarbragga sem stendur enn í dag með sama lit neðan við Suðurgötubakkann.

Það eru ekki margir bæjarbúar sem rekast á þennan rólyndis franska mann eða verða þess varir að hann sé staddur í bænum. Hann var að öllum líkindum eini gesturinn á farfuglaheimilinu og það fór greinilega lítið fyrir honum.

Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Hóll á Siglufirði ( Hólsbúið ), þar sem starfrækt var kúabú fyrir bæinn í mörg ár.


Fimmtudaginn 9 september 1971 birtist örstutt frétt á baksíðu Moggans með fyrirsögninni: 

Útlendings enn leitað!

Og þar stendur bara í stuttu máli að ungur maður sem dvalið hefði á farfuglaheimilinu í um vikutíma væri horfin og ekkert sést til hans síðan mánudaginn 6 september. Allur farangur er ósnertur í herbergi mannsins og þar fannst einnig farmiði til Evrópu með Gullfossi 15 september.

40-50 manns taka þátt í leit um öll fjöll og fjörur fjarðarins í fleiri daga en ekkert finnst sem tengist þessu dularfulla mannshvarfi. 

Mín forvitnu barnaeyru heyrðu fullorðið fólk “oja og fussa sig” í orðum um þennan tínda Frakka eins og “hvað í ósköpunum er þessi maður að þvælast hér og tínast og skapa svona túrista-vandræði fyrir okkur….. ha, furðulegt, svei mér þá…..”

Svo var einhver orðrómur um að hann hefði komið hingað til þess að “komast nærri Guði” hvað svo sem er átt við með því ? 

Líklega er þetta spunnið upp úr upplýsingum frá bróður unga mannsins sem kom hingað í skyndi til að reyna að hjálpa til við að varpa ljósi á þetta óskiljanlega mannshvarf. En bróðirinn hafði enga raunhæfa skýringu og það litla sem rætt var um varðandi persónuleika hins tínda var að hann var sagður hljóðlátur og mjög svo trúaður einfari og kannski var þetta ferðalag hingað af öllum stöðum gert til þess að fá að vera einn í fámenninu með sjálfum sér og kannski finna guð og sjálfan sig fallegri Íslenskri náttúru.
En hver veit það svo sem?

Það líður og bíður og þrátt fyrir víðtækja leit, finnst ekkert…..
Á bls. 2 í Morgunblaðinu birtist stutt frétt þriðjudaginn 14 september um víðtaka leit þar sem leitað er á stórum svæðum eins og Lágheiði, í Hraunadal, Úlfsdal og gengið var um allan Almenning o.fl.

Sunnudagur 26 september.
Gangnamenn finna skóbúnað og fatnað við Blekkilsá í Hólsdal

En áður en við höldum lengra skulum við kíkja á tvær myndir frá kortaskjá Fallabyggðar til að átta okkur betur á þessum öllu.

(P.S. Ef þið eru í vandræðum með að stækka myndirnar er betra að fara beint inn á trolli.is en að lesa gegnu slóð frá Facebook.)

Blekkilsá er innarlega og að vestanverðu í Hólsdal og rennur niður í Fjarðará
(Hólsá segja sumir))


Við bæjarbúar fréttum auðvitað fyrstir af öllum af þessum fatnaðar-fundi rollubænda bæjarins en það er frétt um þetta í þriðjudagsblaði Moggans 28 september en blaðið kom ekki út á mánudögum á þessum tíma.

Og nú fór nú aldeilis hrollur um minn og marga aðra barnaheila á Siglufirði með mörgum sérkennilegum spurningum ?????

Hvað… af hverju fór Frakkinn úr öllum fötunum og skónum líka?  Og svo fannst armbandsúrið hans líka þarna og dagatalið á því hafði stoppað 11 september.

Ha… ætlaði hann þá allan tíman bara að fremja sjálfsmorð, einn og allsber upp í fjalli?

Spurningarregnið var óendanlegt og ekki bætti úr skák að hann fannst samt ekki í nágrenni Blekkilsár í Hólsdal þrátt fyrir víðtæka leit… 
….. hvert fór nakinn maðurinn… ?

Hvað komst hann langt, nakinn í kulda og slydduhríð?

Þessi dularfulla gáta var alveg að fara með okkur krakkana og ímyndunaraflið fór með okkur um allar trissur.

En svo fór það alveg endanlega með okkur öll þegar umræða skapaðist í bænum um að kannski hafi hann drekkt sér í Hólsdalsstíflunni þarna rétt fyrir neðan og væri búinn að liggja í vatnsbólinu okkar……

….. og við kannski öll búinn að drekka seiðið af látnum manni í fleiri vikur……

ÚPS! Guð minn almáttugur, það getur bara ekki verið…..og má bara ekki vera satt og sumir neituðu að drekka vatn lengi vel.

Finnst loksins á “FRANSMANNSKOLLI”

Lesendur góðir, ég bara veit ekki hvort það liðu nokkrir dagar eða heil vika þar til hin ungi franski ferðamaður fannst látinn og nakinn þó nokkuð hátt uppi í fjallinu fyrir ofan þann stað sem fötin fundust við Blekkilsá og lauk nú þessu sorglega og dularfulla mannshvarfsferli.

Sagan segir að Fljótamaðurinn og fjárbóndinn mikli, Pétur á Hraunum hafi komið til Siglufjarðar á sínum græna rússajeppa og verið að skimast eftir eftirlegukindum í fjöllunum í Skarðsdal og Hólsdal.
Hann sér þá mikið Hrafnaþing þarna uppi á kolli sunnan við Selskál og skilur að þarna var líklega eitthvað á seiði tengt þessu mannshvarfi.

Þessi staður er alla tíð síðan nefndur “Fransmannskollur” og er mér sagt að þeir fjallaferðavinirnir og kennarar mínir Páll Helgason og Guðbrandur Magnússon hafi fundið upp á þessu nafni.  En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

25. Apr, 2020
Hér má sjá innsenda viðbót varðandi örnefnið Fransmannskollur:
ÖRNEFNIÐ FRANSMANNSKOLLUR! STUTT VIÐBÓT VIÐ DULARFULLA MANNSHVARFSSÖGU

Í leit minni að ýmsum upplýsingum og upplifun annarra var ég meðal annars í sambandi við Siglfirðinginn Gest Hansson en hann og eiginkona hans Hulda Friðgeirsdóttir eru mjög svo kunnug um staðhætti og allt sem varðar fjallgöngur og þau taka bæði glæsilegar ljósmyndir í sínum fjallaferðum.

Þegar ég hringdi þá eru þau að sjálfsögðu í göngu suður á firði í vorblíðunni svo Gestur tók þessa fínu mynd til að sína okkur hvar Fransmannskollur er.  

Fransmannskollur í Hólsdal. Ljósmyndari: Gestur Hansson.

Ofkæling setur grillur í hausinn á fólki

Við Gestur ræddum líka um þetta ótrúlega fyrirbæri þar sem fólk sem verður alvarlega ofkælt verður mjög svo ruglað í ríminu. Heilinn fer skyndilega að senda boð um að þér sé ofsalega heitt í staðin fyrir kalt og þá fer fólk að rífa sig úr skóm og fötum og þá er yfirleitt ekki langt í að hann með ljáinn komi og nái í mann.

En sumir komast samt alveg furðulega langt, einhvern veginn er fólk “ósjálfrátt” að reyna að halda áfram að bjarga sér til bæjar.

Um þetta fyrirbæri eru til allskyns sögur tengdar fólki sem hefur horfið og eða “orðið úti” eins og sagt er. 
Ef nakinn karlmaður fannst og ekki fötin þá var oft sagt að grimmir útilegumenn hafi rænt manninn og skilið hann eftir nakinn en ef að kona fannst látinn og nakinn var oft talað um hræðilega glæpi eins og nauðgun.

Ef bara fötin fundust þá var ekki fjarri lagi að halda að álfar og tröll hafi kannski stolið þessari horfnu manneskju. 

Með þetta einkennilega fyrirbæri í huga tel ég það frekar ólíklegt að þessi blessaði ungi franski ferðalangur hafi haft sjálfsmorð í huga þegar hann kom til Siglufjarðar haustið 1971.  Þrátt fyrir orðróm um að hann hafi kannski verið svolítið sérstakur og öðruvísi karakter.

Að verða úti eða næstum úti….

Ég tel af eigin reynslu að munurinn á lífi eða bráðum óvæntum dauða liggur oftast í að þekkja til aðstæðna, kunna að klæða sig eftir veðri og sýna snöggum veðurfarsbreytingum Íslands virðingu, sem er augljóslega ….. lífsnauðsynlegt

En þetta vita ekki allir því miður.

Um Hvítasunnuhelgi um miðjan maí vorið 1980 þegar ég er nýorðin 18 ára og frekar óreyndur bílstjóri, festi ég fjórhjóladrifin bílaleigubíl að gerðinni Lada Sport… (oft kallaðir Lada Teygju_Sport, því þeir áttu það til að teygjast þegar þeir voru dregnir úr sköflum)
….í stóru beygjunni norðan við Skriðurnar.

Einn og verkfæralaus reyndi ég að moka snjó með höndunum, ballklæddur í töffaraskóm, í norðan slyddu og nístingskulda.

Djöflaðist síðan svo lengi í skaflinum að bíllinn varð bensínlaus.
Nú þegar blautur og kaldur var valið að annað hvort frjósa í hel illa klæddur í bílnum eða ganga á móti hríð og norðanstormi út á Sauðarnesvita því það var allt ófært og engin heilvita maður á ferðalagi nema ég. 

Geng af stað og þó þetta sé ekki svo langt þá varð þetta fljótlega spurning um líf eða dauða….. tapaði áttum, var ekki viss hvort ég væri að ganga á veginum eða ekki…. sá ekki glóru en svo rétt glimti í vitaljósið og ég náði áttum aftur og stytti mér leið yfir girðingar og tún og banka örmagnaður á útidyrahurðina hjá Vitavarðarfjölskyldunni indælu og Trausti og Hulda voru greinilega þrælvön að taka á móti svona óvæntum ofkældum gestum um miðja nótt.

Ég á ekki orð til að lýsa þakklæti mínu og ég spyr sjálfan mig oft…

Hversu mörgum mannslífum hefur ekki þessi dásamlega fjölskylda á Sauðanesi bjargað?

Þessi reynsla gaf mér þvílíka áminningum um að alltaf!
Alltaf láta aðra vita á hvað ferðalagi ég er og hafa með fatnað og annað til að geta mætt óvæntum aðstæðum.
Reyndar var búið að segja mér þetta í fleiri ár af öllum sem búa þarna en mér ódauðlegum unglingnum fannst þetta ekkert endilega gilda um mig og mitt unga spennandi líf.

Enn í dag hringi ég alltaf í vini og vandamenn áður en ég fer af stað, jafnvel þótt ég sé að keyra á stórum Evrópuvegum um hásumar.

Því ég vill hvorki tínast í útlöndum eða hreinlega verða “næstum” úti aftur! 

Lifið heil og kær kveðja 

Nonni Björgvins

Texti og forsíðu ljósmynd:
Jón Ólafur Björgvinsson

Aðrar ljósmyndir: Ljósmyndasafn Siglufjarðar, Kortaskjá Fjallabyggðar og Gestur Hansson.

Heimildir koma að frá eigin minningum um þennan atburð, ásamt spjalli við vini og kunningja og brotum úr ýmsum blaðagreinum frá timarit.is.

Aðrar sögulegar greina eftir Jón Ólaf Björgvinsson finnur þú hér á trolli.is.