Um síðustu helgi birtist hér á Tröllasíðunum grein sem heitir: 

DULARFULLT MANNSHVARF Á SIGLUFIRÐI 1971

Undirritaður vill þakka öllum lesendur sem rétt eins og ég mundu vel eftir þessum sorglega en mjög svo dularfulla atburði og það hafa margir sent mér allskyns eigin minningabrot og viðbætur.

En ef þeim yrði öllum bætt við söguna þá yrði þetta “sagan endalausa.” 

Ef ég sjálfur vildi bæta einhverju við söguna þá er það minningarmyndir  um að við krakkarnir hræddum okkur sjálf með sögum um að suður á Hóli væri nú mikil “Franskur” draugagangur.

En þessi viðbrögð frá ykkur öllum kæru lesendur sýna líka að þessi atburður er í rauninni orðin nútíma “Siglfirsk þjóðsaga” og það eru til jafnmargar útgáfur (minningarmyndir) af henni eins og núlifandi Siglfirðingar sem minnast þessa atburðar eru margir.

Og rétt eins og þegar þjóðsögur myndast þá fylgja því oft ný örnefni sem minna á þennan atburð um alla framtíð.

En ég lét eftirfarandi orð falla í sögunni: 

Þessi staður er alla tíð síðan nefndur “Fransmannskollur” og er mér sagt að þeir fjallaferðavinirnir og kennarar mínir Páll Helgason og Guðbrandur Magnússon hafi fundið upp á þessu nafni.  

En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.” ….
 

Eins gott að ég sagði það. 

Því efir farandi viðbætur hér undir bárust mér frá Örlygi Kristfinnssyni um tilurð örnefnisins “Fransmannskollur” og þær eiga meira en mikið rétt á því að ná ykkur lesendum. 

Takk, Örlygur.

Sæll Nonni og bestu þakkir fyrir söguna af Fransmanninum –

Þetta er ein af uppáhalds sögum mínum sem fjallaleiðsögumaður hér um slóðir – hóf að segja hana einhvern tíma fyrir 2010 en hafði ekki heyrt aðra segja hana áður í því samhengi að hægt væri að benda á klettakollinn yfir Selskál og geta sagt: þarna gerðist það! – o.s.frv.

Mundi vel þennan atburð og tók þátt í leit “í nágrenni sumarbústaða og í útihúsa” eins og það var kallað á sínum tíma. Hef alltaf litið á þessa sögu sem afar dramatíska: að hugsa sér ungur maður fer að heiman, suður við Miðjarðarhaf, og hingað norður á hjarann til að deyja einn og nakinn upp á fjalli. Ég hef notað orðið sjálfsfórn í stað sjálfsvígs.

Jæja, þarna einhvern tíma eftir 2003 hófum við þrír, Hannes Bald, Páll Helgason og ég, á tíðum fundum okkar að fjalla um og að staðsetja á kortum rúmlega 1300 örnefni úr örnefnaskrá Helga Guðmundssonar. 

Þá rifjaðist upp fyrir mér sagan af Fransmanninum og ég talaði sérstaklega við amk. tvo þeirra sem tóku þátt í leiðangrinum þegar lík hans var sótt á klettakollinn upp af Selskál – eftir leiðsögn hrafnanna. Þeir tveir sem vísuðu mér á hnjúkinn voru: fyrst Guðlaugur Henriksen og síðan Páll Helgason. Og þeim bar alveg saman um staðsetninguna.

Mér er það líka sérstaklega minnisstætt þegar við rúntuðum um bæinn, við Páll, og fundum ákjósanlegt sjónarhorn á klettakollinn, en það var niður á Hafnarbryggju. Þarna sátum við í bílnum og töluðum um atburðinn og að þessi litli hnjúkur hefði ekkert nafn. Og þá var sagt: á hann ekki bara að heita Fransmannskollur!

Og síðan þá hefur hann heitið það í munni okkar og vina og kunningja sem hafa fengið að heyra örlagasögu þessa unga Fransmanns. Og þegar örnefnavefsíðan snokur.is var opnuð 2008 var ákveðið að Fransmannskollur væri merktur þar inn á ljósmynd.

Sem sagt, það var gott að þú tókst það fram að þú seldir ekki þessar upplýsingar dýrar en þú keyptir þær – að Páll og Guðbrandur, gamlir kennarar þínir, hefðu fundið upp á nafninu. 

Nafnið Fransmannskollur kom ekki í notkun fyrr en uþb. 12-15 árum eftir dag Guðbrands.

Góð kveðja, Örlygur

Séð inn í Hólsdal. Ljósmynd frá örnefnasíðunni snokur.is.

Lifið heil og kær kveðja 

Nonni Björgvins

Texti :
Jón Ólafur Björgvinsson og Örlygur Kristfinnsson

Ljósmyndir: Gestur Hansson og Hannes P Baldvinsson

Aðrar sögulegar greina eftir Jón Ólaf Björgvinsson finnur þú hér á trolli.is.

og

Greinar eftir Örlyg Kristfinnsson finnur þú hér á trolli.is.