Hringsjáin sem sýnir kennileiti og örnefni í Siglufirði

Árið 1988 gaf árgangur 1933 á Siglufirði hringsjá sem staðsett er á Álfhól við Hólsá (Fjarðará) sem rennur í Siglufjörð.

Örlygur Kristfinnsson teiknaði útsýnisskífuna og var hún sett upp með myndarbrag þegar árgangurinn kom saman á Siglufirði í tilefni af fermingarafmæli sínu.

Síðan þegar Snorragata var lögð, var brúin yfir á Álfhól fjarlægð og skiltið sem benti á skífuna var einnig fjarlægt. Var það ekki lagfært að verki loknu og þessari gjöf því sýnd lítil virðing, engar merkingar og aðgengi ekkert í framhaldinu.

Síðan var það árið 2016 að þrjár skólasystur úr árganginum, þær Erla Þórðardóttir, Steinunn Friðriksdóttir og Viktoría Særún Gestsdóttir mættu galvaskar á fund þáverandi bæjarstjóra, Gunnars I Birgissonar, eftir að hafa blotnað í fæturna við að komast að skífunni.

Í framhaldi af þeim fundi sendi Viktoría Særún Gestsdóttir erindi inn til bæjarráðs með tilvísun í fund með bæjarstjóra. Viktoría Særún hefur haldið málinu vakandi síðan og fylgt því eftir með bréfaskriftum.

Svo var það árið 2018 að gefið var út að viss fjárveiting ætti að fara til verksins, en framkvæmdum var síðan frestað til ársins 2019.

Þegar ekkert bólaði á framkvæmdum við verkið sendu þær skólasystur saman bréf til Fjallabyggðar, sjá frétt “Svikin loforð“, þar sem þær sögðu meðal annars:

Þykir okkur þessu framtaki okkar lítill sómi sýndur og hvarflar að okkur hvort verkefnið gæti höfðað til einhverra félagasamtaka í bænum ef bæjaryfirvöld hafi ekki burði til verksins. Okkur langar að komast þurrum fótum að hringsjánni næst þegar við komum, enda komnar á níræðisaldur.

Nú á dögunum bárust þeim þau gleðitíðindi að fara ætti í verkið og klára fullnægjandi aðgang að hringsjánni, heima- og ferðamönnum til fróðleiks og ánægju.

Vilja þær að lokum koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa aðstoðað við að koma málinu á rekspöl og Fjallabyggð fyrir að ganga í málið núna.

Fermingarágangur1947 þegar hringsjáin var afhent árið 1988
Skólasysturnar Steinunn Friðriksdóttir, Kristín Pétursdóttir, Erla Þórðardóttir og Viktoría Særún Gestsdóttir, myndin var tekið 2018 á Aðalgötunni á Siglufirði


Myndir: aðsendar