Landhelgisgæslan hefur verið með dróna frá Siglingastofnun Evrópusambandsins (EMSA) í sumar, öflugan dróna sem er með 200 km drægni og getur verið á lofti í sex tíma. Hann er mun stærri en eftirlitsdróni Fiskistofu, sem einnig hefur verið notaður mikið í sumar en dregur skammt.

„Við erum búnir að nota hann í sumar við fiskveiðieftirlit, landamæraeftirlit, mengunareftirlit og almenna löggæslu. Þetta er bara viðbótareining við þau verkfæri sem við erum með,“ segir Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri drónaeftirlits Landhelgisgæslunnar.

Hann segir að 4 til 5 mál séu í skoðun, en ekki hafi komið upp nein stór brotamál. „Sem er mjög gott, því við höfum fylgst með öllum flotanum, bæði stórum og litlum skipum. Öllu sem á vegi okkar er.“

Enginn markverður munur hafi komið í ljós á skipum eftir stærðum, hvort heldur það eru togarar, línubátar eða minni bátar sem fylgst sé með.

Svipað og í fyrra

Hvað Fiskistofu varðar þá hefur hlutfall brota í sumar hins vegar verið svipað og var á síðasta ári. Sævar Guðmundsson deildarstjóri segir að brottkasts hafi orðið vart í 20-30% tilfella á strandveiðum. Flogið var yfir 35 handfærabáta í maí og júní og reyndust 16 bátar uppvísir að brottkasti, og var hlutfallið þar 46%. Á síðasta ári komu upp 142 brotamál. Á síðasta ári komu upp 142 brotamál, en vegna sumarleyfa hjá Fiskistofu liggja ekki enn fyrir nákvæmar tölur um þau mál sem komið hafa upp í sumar.

„Því miður eru ekki alveg allir að fara eftir reglunum, en auðvitað er fyrirmyndar umgengni líka. Suma daga vorum við að sjá lítið, aðra daga nánast alla báta.“

Óneitanlega er misræmi þarna milli útkomunnar úr eftirliti Landhelgisgæslunnar og  eftirliti Fiskistofu. Auðunn hjá Landhelgisgæslunni sagðist ekki kunna skýringu á því, en þetta sé eitthvað sem greinilega þurfi að skoða í samvinnu við Fiskistofu.

Hafa sannað gildi sitt

Dróni Fiskistofu var tekinn í notkun í byrjun árs 2021 og Sævar segir drónaeftirlitið hafa margsannað gildi sitt. Það sé tvímælalaust komið til að vera og lagabreyting sem samþykkt var á Alþingi í vor hafi treyst lagalegan grundvöll eftirlitsins verulega. Auk þess að fylgjast með veiðum er dróninn einnig nýttur til þess að fylgjast með lax- og silungsveiðum i sjó.

„Svo er í haust að hefjast tilraunaverkefni með útgerðum með myndavélar um borð,“ segir Sævar. Margar útgerðir hafi tekið vel í það og séu jákvæðar í að fara í samstarf, en þar hafi áður strandað á persónuverndarmálum. Nú sé komin skýrari lagastoð um það og ekkert að vanbúnaði lengur að hefa tilraunaverkefnið.

Landhelgisgæslan hefur verið að fljúga sínum dróna 4-5 sinnum í viku, 5-6 tíma í senn.

„Við reynum að fljúga fimm tíma á dag fimm daga vikunnar, en það tekst ekki alltaf vegna veðurs. En þetta gefur okkur möguleika á því að sigla minna og senda drónana frekar frá skipinu til að stækka eftirlitssvæðið.“

Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson