Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.
Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).
Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.
Það var margt sem gerðist úti í bakka. Hér eru nokkur minningabrot – örsögur – sem ég hef sett saman. Þetta er meira satt og rétt en logið, einhver blanda.
Skotfimi
Fúsi vinur minn átti loftriffil. Fúsi átti heima í húsinu ofan við syðri endann á ysta verkamannabústaðnum. Húsið stóð talsvert ofar en Hvanneyrarbrautin. Það var girðing á bakkanum og runnar innan við. Loftriffillinn var alls ekki kraftmikll og dreif ekki langt. Við höfðum oft skotið á ýmislegt án þess að það ylli skaða. Meira að segja höfðum við prófað að skjóta á okkur sjálfa aftan frá á nokkru færi án þess að öskra af sársauka.
Á þessum árum var mjólkin enn afgreidd í mjólkurbrúsa sem komið var með í mjólkurbúðina. Þar var sérstakt tæki, einskonar glertankur, sem mjólkinni var dælt úr í brúsana. Einn pottur eða meira. Svo bar fólk, mest konur, mjólkina heim til sín. Þá voru ekki allir með sinn eigin bíl til að fara í búð.
Við Fúsi tókum okkur stöðu uppi í garði, á milli runna, með loftriffilinn. Þegar konurnar, sem einskis áttu von, gengu framhjá niðri á götunni skutum við og reyndum að hitta mjólkurbrúsann. Þegar við hittum heyrðist svona plíng hljóð. Ef við hittum ekki brúsann heldur konuna heyrðist stundum ææi eða öllu verra. Stundum var æpt á okkur og allskonar orð notuð. Við létum samt ekkert á okkur bíta og biðum bara eftir næsta færi. Af því að riffillinn var svo slappur gerðist eiginlega ekkert annað en plíng þegar við hittum brúsa en flestar konurnar voru í kápum sem náðu niður að stígvélum og ef við geiguðum á brúsanum tóku þær bara ekkert eftir að smá blýhagl lenti á kápunni. Það var helst á góðum sumardegi að konur voru ekki í kápu, heldur pilsi og þá lenti haglið á berum fæti. Ég man ekki eftir að nokkur hafi særst. Líklega man engin eftir þessu og ég heyrði aldrei að einhver hefði klagað okkur til foreldra eða löggu.
Mynd tekin í norðurbænum af verkamannabústöðunum /Einar Albertsson