Albert Einarsson

Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.

Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).

Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.

Það var margt sem gerðist úti í bakka. Hér eru nokkur minningabrot – örsögur – sem ég hef sett saman. Þetta er meira satt og rétt en logið, einhver blanda.

 Á dúfnaveiðum  

Eitt sinn sem oftar voru krakkar að leik neðan við bústað. Það voru stórir krakkar, mest strákar, sem höfðu sett upp kassa og lítið prik sem hélt uppi annarri hliðinni. Svo var spotti bundinn í prikið. Við hliðina á kassanum og undir höfðu krakkarnir stráð hafragrjónum. Það leið ekki á löngu að dúfurnar uppgötvuðu þetta góðgæti og algjör veisla rétt við og undir kassanum. Þegar dúfur voru komnar undir kassan kipptu krakkarnir í spottann og kassin féll yfir dúfurnar. 

Seinna heyrði ég að krakkarnir höfðu séð þetta á bíó. 

Dúfurnar tóku krakkarnir og slepptu lausum inn í snyrtiherbergið í ytri endanaum. 

Ég, sem þá var bara 7 ára og stóð ekki úr hnefa, skildi ekki þetta með kassann. Af hverju krakkarnir fengu ekki dúfurnar til að fara beint inn í snyrtið? Ég mun hafa ákveðið að gera þá tilraun. 

Mamma geymdi grjón og hveiti í skúffum í eldhúsinu. Ég stráði talsvert af hafragrjónum og reyndar hveiti líka inni í snyrtinu, og utan við dyrnar var svæðið hvítt af mjöli og grjónum. Dúfurnar sóttu strax í grjónin og hveitið, en létu ekki lokka sig inn í snyrtið. Dyrnar voru galopnar, og þrátt fyrir að ég bæri enn meiri grjón á gólfið í snyrtinu vildu dúfurnar ekki inn. Meira að segja tókst mér ekki að reka þær inn, þær flugu bara upp, og komu aftur. Við þetta baukaði ég dágóða stund.

Svo kom mamma heim. Það voru hafragrjón og hveiti á eldhúsgólfinu, fram ganginn og út í snyrtið og á hlaðinu framanvið. Þar stóð ég, hvítur í framan, peysa og buxur al þaktar hveiti og dúfurnar alsælar. 

Myndir/aðsendar