Trölli.is birtir öðru hverju gamlar fréttir af vefnum Siglo.is. Hér kemur frétt frá 27. nóvember 2011, Finnur Ingvi Kristinsson ritaði texta og mynd úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Ljósmynd vikunnar – húsið Aðalgata 3 Siglufirði
Húsið Aðalgata 3, Siglufirði, er byggt árið 1907. Halldór Jónasson verslunarmaður og kona hans Kristín Hafliðadóttir bjuggu á efri hæðinni ásamt börnum sínum, Petrínu, Hafliða, Huldu, Mattheu og Kristni.
Á neðri hæð hússins var verslun með allskonar varning, einskonar krambúð. Í litlu húsi beint á móti (Aðalgötu 4) rak Halldór einnig vefnaðarvöruverslun, sem ávallt var kölluð B.deildin.
Halldór keypti Gamla bíó í Reykjavík fyrir erlenda peninga og ætlaði Kristni syni sínum rekstur þess, en Kristinn var berklaveikur og vildi heldur fara heim og sjá um rekstur verslunar föður síns. Einnig gerðist Kristinn síldarsaltandi.
Það þótti mikið afrek að Halldór skyldi kaupa Gamla bíó í þá daga, því ríkustu menn í Reykjavík buðu líka í það, en Siglfirski verslunarmaðurinn bauð betur og hafði hann hagnast vel á að versla við útlendinga. Hafliði sonur hans tók síðan við rekstri Gamla bíós.
Núverandi eigendur Aðalgötu 3 eru Hrafnhildur Stefánsdóttir og Birgir Björnsson