Lagt var fram erindi Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur á 304 fundi skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar
Óskar hún eftir úthlutun lóðarinnar Túngötu 22 og að hún verði sameinuð lóð Alþýðuhússins að Þormóðsgötu 11-15.
Markmið Aðalheiðar er að koma upp skúlptúra garði á lóðinni sem opinn verður gestum og heimamönnum. Einnig óskað eftir leyfi til að byggja steyptan vegg til að afmarka garðinn til vesturs.
Nefndin tók jákvætt í erindið en leggur til að listigarðurinn Garður verði á sér lóð, Túngötu 22. Tæknideild falið að útbúa drög að nýjum lóðarblöðum fyrir Þormóðsgötu 11-15 og Túngötu 22 og leggja fyrir bæjarráð og lóðarhafa.
Nefndin gerir ekki athugasemdir við steyptan vegg en bendir á að leita þarf samþykkis lóðarhafa við Túngötu 20B þar sem veggurinn liggur að lóðarmörkum.
Sjá fylgigögn:
Alþýðuhúsið 13.10.23
Til þeirra sem málið varðar.
Fyrir allnokrum árum sendi ég inn erindi til bæjarins varðandi lóðina Túngata 22. sem staðsett er sunnan við lóð Alþýðuhússins Þormóðsgötu 11 – 15.
Erindið fjallaði um að fá lóðina að Túngötu 22. úthlutaða fyrir skúlptúrgarð sem opinn er almenningi, og sameina þannig lóð Alþýðuhússins Þormóðsgötu 11 – 15. Erindið strandaði á villu í þinglýsingu þar sem fyrrverandi eigendur Þormóðsgötu 11 – 15 komu við sögu, eigendur Allans. Nú öllum þessum árum síðar vil ég láta taka erindið upp aftur. Í millitíðinni var mér veitt leyfi til að girða og gróðursetja runna á þremur af fjórum hliðum lóðarinnar að Túngötu 22.
Ég óska hér með formlega eftir að bæjarfélagið úthluti mér lóðina að Túngötu 22. og að hún verið
sameinuð lóðinni að Þormóðsgötu 11 – 15 ( vísa í fyrra erindi þess efnis ) “Lóðaleigusamningur fyrir skúlptúrgarð – Túngata 22. Siglufirði” Málsnr. 1804119 þannig að ég geti haldið áfram uppbyggingu listigarðsins Garðs, sem staðið hefur yfir undanfarin 8 ár.
Markmiðið er að koma upp ævintýralegum skúlptúrgarði sem byggir á gömlum íslenskum hefðum með steinhleðslu og torfi, handverki og þjóðsögum, í bland við lifnaðahætti dagsins í dag. Garði þar sem gestir og heimamenn geta fundið athvarf fyrir hugmyndaflug og einveru, en einnig notið samvista við náttúru, listaverk og aðra gesti. Nú þegar eru komin tvö stór verk í garðinn, Álfhóll og Bergmyndir og verður þriðja stóra verkinu sem ber heitið Samvöxtur komið fyrir í garðinum næsta sumar. Einnig er þar komið verk eftir Harald Jónsson og væntanlegt er verk eftir Brák Jónsdóttur.
Garðurinn er nú þegar orðinn griðastaður og mjög eftirsóttur af ferðafólki yfir sumartímann. Gróður hefur vaxið og kunna gestir að meta það.
Nú er komið að því að afmarka garðinn með inngangi og framhlið sem snýr að bílaplani til vesturs. Óska ég því eftir því hér í sama erindi að fá leyfi til að byggja steyptan vegg ( sjá teikningu í fylgiskjali ) til að afmarka garðinn til vesturs. Áætlað er að byggja samskonar vegg á austur og norðurhlið garðsins í framtíðinni og fá þannig samræmi og heildarsvip á svæðið.
Með virðingu og vinsemd
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir