Eins og fram hefur komið greindist skæð fuglainflúensa í kalkúnum á Auðsholti í Ölfusi sl. þriðjudag, 3. desember. Aðgerðir hafa gengið vel en hætta á smitdreifingu er enn mikil. Fuglaeigendur og almenningur eru beðnir um að vera vel vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í fuglum eða óeðlilegum dauða. Minnt er á að fuglaflensa getur mögulega borist í fólk, sem er í náinni snertingu við veika fugla, en ekki er hætta af neyslu afurða.
Í október greindust í fyrsta skipti á þessu ári skæðar fuglainflúensuveirur í villtum fuglum. Síðan þá hefur óvissustig verið í gildi. Nú hefur það verið hækkað í neyðarstig. Upplýsingar um þessi mismunandi stig er að finna á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um fuglainflúensu.
Þetta er í fyrsta skipti sem skæð fuglainflúensa greinist hér á landi á alifuglabúi. Fram til þessa hafa greiningar verið einskorðaðar við villta fugla og einn lítinn hóp heimilishænsna árið 2022.
Um leið og greining fuglainflúensunnar var staðfest var hafist handa við aðgerðir. Allir fuglar í viðkomandi húsi voru aflífaðir samdægurs með mannúðlegum hætti. Í dag hefur verið unnið að förgun á hræjum og öðrum sóttmenguðum úrgangi, sem og þrifum og sótthreinsun á húsinu.
Ekki er vitað hvernig smitið barst inn á kalkúnabúið en veiran sem um ræðir er af gerðinni H5N5, sem er það afbrigði veirunnar sem hefur greinst í villtum fuglum í haust. Niðurstöður raðgreininga á veirunni sem greindist í kalkúnunum eru væntanlegar í næstu viku og þá kemur í ljós hvort um nákvæmlega sama afbrigði er að ræða og það sem hefur fundist í villtum fuglum undanfarið.
Vegna þessarar greiningar mælist Matvælastofnun til þess að allir fuglaeigendur gæti ýtrustu sóttvarna. Meðal mikilvægustu aðgerða til að koma í veg fyrir að fuglarnir smitist er að alifuglar og aðrir fuglar í haldi fólks, séu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum. Einnig er mikilvægt að forðast að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla.
Strangari reglur hafa verið fyrirskipaðar á svæði í 10 km radíus út frá smitaða húsinu og hafa allir alifuglaeigendur á því svæði verið upplýstir um þær. Meðal annars er nú bann við flutningi á fuglum og öllu sem getur borið smitið út af búunum, nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar. Svæðið má sjá á kortasjá Matvælastofnunar (smellið á ör framan við „sjúkdómar“ og hakið svo við „fuglainflúensa“). Þær takmarkanir sem lagðar hafa verið á munu gilda að öllu óbreyttu til 28. desember en tíminn framlengist ef smit kemur upp í fleiri alifuglahúsum.
Aðgerðir vegna þessa tilfellis hafa gengið mjög vel. Allir sem að hafa komið hafa brugðist skjótt og vel við. Þetta er mjög vandasamt verk og að mörgu að gæta. Matvælastofnun er þakklát fyrir þessi góðu viðbrögð og telur að þau hafi mikla þýðingu við að draga úr hættu á smitdreifingu.
Mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir að hættan telst langt í frá vera liðin hjá. Meðgöngutími sýkingarinnar getur verið allt að 14 dagar þannig að þótt enn hafi ekki komið fram sjúkdómseinkenni í öðrum alifuglahúsum geta fuglarnir þegar verið sýktir. Fuglaeigendur þurfa því að vera stöðugt vakandi fyrir einkennum og tilkynna dýralækni sínum eða Matvælastofnun án tafar um minnsta grun. Hringja má í sérgreinadýralækni alifugla í síma 8617419.
Almenningur er sem fyrr beðinn um að tilkynna um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum í gegn um ábendingarkerfi Matvælastofnunar.
Minnt er á að fuglainflúensa getur mögulega smitað fólk sem er í náinni snertingu við veika fugla. Það skal þó tekið fram að ekki er vitað um smit í fólki með þessari tegund veirunnar. Nákvæmar upplýsingar um fuglainflúensu í fólki er að finna á síðu sóttvarnalæknis.
Engin hætta stafar af neyslu afurða og því ekki þörf á innköllun á kalkúnakjöti sem er á markaði.
Upplýsingasíða Matvælastofnunar um fuglainflúensu
Mynd/MAST